Komu alla leið frá Kanada til að taka þátt

Stöllurnar komu til Íslands til að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. …
Stöllurnar komu til Íslands til að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Frá vinstri: Kiara DeKenzel, Dara Todd og Sigrid DeKenzel. Styrmir Kári

Vestur-Íslensku mæðgurnar Sigrid og Kiara De Kezel og systurdóttir Sigridar, Dara Todd, hyggjast allar taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun. Stöllurnar komu hingað til lands alla leið frá Kanada til að taka þátt, ásamt þremur systrum Sigridar og tveimur systradætrum til viðbótar. Allar eiga þær ættir að rekja til Íslands.

„Forfeður okkar eru frá Íslandi og fjölskyldan okkar bjó hér,“ segir Sigrid, en þetta er í fyrsta skipti sem þær stöllur heimsækja landið. Hópurinn hefur ferðast hringinn í kringum landið á síðustu dögum og heimsótt staði þar sem forfeður þeirra bjuggu. „Við fórum til Grundarfjarðar, Akureyrar, á Austfirði og enduðum svo í Vestmannaeyjum. Stór hluti fjölskyldunnar okkar er úr Eyjum,“ segir Sigrid, og bætir við að bæði móður- og föðurættir þeirra megi rekja til Íslands.

Mikið að taka inn á stuttum tíma

Ferðin byrjaði ekki vel hjá hópnum, en stöllurnar flugu frá Winnipeg í Kanada til Minneapolis þar sem flugvélinni seinkaði og þar af leiðandi misstu þær af tengifluginu til Íslands. Þær voru því sendar til Parísar og áttu að ná flugi til Íslands þar, en misstu líka af því þar sem gleymst hafði að prenta fyrir þær flugmiða. Fyrir vikið þurftu þær að taka næsta flug sem var um 10 tímum seinna og sátu fastar á flugvellinum í París í millitíðinni.

Þær létu þetta þó ekki á sig fá, en voru mjög fegnar þegar á leiðarenda kom. „Það er erfitt að trúa því að við séum loksins komnar. Þetta er allt svo óraunverulegt,“ segir Dara. „Þetta er mjög mikið að taka inn á svona stuttum tíma en við erum búnar að njóta þess í botn.“

Hlaupa fyrir sykursjúka í Kanada

Mæðgurnar, Sigrid og Kiara, komu hingað til lands í um 30 manna hópi frá Kanada, Team Diabetes, en meðlimir hópsins taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Samtökum sykursjúkra í Kanada. Team Diabetes hefur ferðast um allan heim í sama tilgangi, en liðið hefur safnað miklum peningum fyrir samtökin. Mæðgurnar munu hvor um sig hlaupa 10 kílómetra.

„Ég sá auglýsingu frá Team Diabetes í líkamsræktarstöðinni þar sem dóttir mín æfir og þar var Reykjavíkurmaraþonið auglýst. Mér datt í hug að það væri frábært tækifæri til að koma til Íslands svo ég sagði systrum mínum og dætrum þeirra frá því og þær voru allar sammála mér,“ segir Sigrid, en hópurinn hóf undirbúning ferðarinnar fyrir ári síðan.

Voru í 9 mánuði að safna fyrir komunni

„Við þurftum að safna 6.100 kanadískum dollurum hver um sig og það er nóg fyrir fluginu, gistingunni og öllu slíku, en afgangurinn fer til Samtaka sykursjúkra í Kanada,“ segir Sigrid, en 6.100 kanadískir dollarar eru um 650 þúsund krónur íslenskar. Hún segir þær mæðgur hafa verið í 9 mánuði að safna peningnum. Málefnið stendur fjölskyldunni mjög nærri, en 8 fjölskyldumeðlimir eru sykursjúkir, þar á meðal Sigrid.

Dara mun hlaupa hálft maraþon ein síns liðs á morgun. „Ég treysti mér ekki til að taka þátt í áheitasöfnun Team Diabetes. Ég er heimavinnandi húsmóðir með þrjú börn og bý í litlum bæ svo það er ansi erfitt að safna svona miklum pening,“ segir hún. „Í staðinn ákvað ég að safna nægilega miklum pening til að koma sjálfri sér til landsins og taka þátt fyrir sjálfa mig,“ bætir hún við, en hún hefur aldrei hlaupið hálfmaraþon áður. „Það var á listanum mínum yfir hluti sem mig langar að gera áður en ég dey svo ég ákvað að slá til.“

Hópurinn mun vera á Íslandi fram á þriðjudag, en Dara vonar þó að það komi til eldgoss og þær muni sitja fastar á landinu lengur. „Mér líður eins og það yrði sönn íslensk upplifun,“ segir hún brosandi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert