Allir farþegar farnir af svæðinu

Ferðamenn við Dettifoss
Ferðamenn við Dettifoss mbl.is/RAX

Tvær rútur á vegum SBA Norðurleiðar voru við Dettifoss og Ásbyrgi þegar svæðinu var lokað vegna mögulegs eldgoss undir Dyngjujökli. Að sögn Bergþórs Erlingssonar, markaðsstjóra SBA Norðurleiðar, var ákveðið að flýta för af svæðinu vegna þessa og tók fyrirtækið þátt í rýmingunni með því að bjóða ferðamönnum far út af svæðinu. Ekki voru fyrirhugaðar fleiri ferðir á þessar slóðir í dag og því verður staðan metin næst á morgun.

Við sjáum bara til með hvort við þurfum að fresta einhverjum ferðum en við erum með daglegar ferðir bæði frá Mývatni og eins Akureyri í gegnum Ásbyrgi,“ segir Bergþór. 

Töluvert er síðan að lokað var fyrir ferðir í Öskju, Kverkfjöll og Herðubreiðalindir og því engar ferðir áætlaðar þangað á vegum SBA Norðurleiðar.

Aðspurður um hvort jarðhræringarnar að undanförnu hafi ekki haft áhrif á starfsemi fyrirtækisins segir Bergþór að áhrifin séu kannski ekki veruleg en helst þannig að fólk hafi hætt við að koma. Til að mynda farþegar sem koma í dagsferðir til Akureyrar með flugi frá Akureyri og fara síðan í ferðir á vegum SBA Norðurleið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert