„Eins og tappi hafi losnað“

Vísindamenn búa sig undir gos í Bárðarbungu.
Vísindamenn búa sig undir gos í Bárðarbungu. mbl.is/Árni Sæberg

„Það hafa merkilegir hlutir verið að gerast í morgun. Berggangurinn tók á rás í morgun. Hann hefur verið stíflaður í sólarhring eða meira. Um kl. 10 í morgun var eins og tappi hafi losnað og gangurinn tók á rás og lengdist um eina 10 kílómetra á skömmum tíma,“ sagði Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur, en hann hefur fylgst með atburðarásinni við Bárðarbungu í morgun.

Páll sagði að flest benti til að berggangurinn væri enn að lengjast til norðurs. Hann hefði tekið smá stefnubreytingu því stefnan hefði verið í norðaustur, en væri núna meira í norður. „Berggangurinn stefnir í átt að jökulröndinni. Það þýðir að þetta lítur betur og verður minna hættulegt eftir því sem tíminn líður. Eftir því sem norðar dregur þá lækkar landið og það þýðir að gos á auðveldara með að ná sér þar betur upp. Berggangurinn er núna nær jökulröndinni, en þar er jökullinn þynnri. Jökulhlaup yrði þá minna en það hefði annars orðið. Jafnframt yrði sprengivirknin minni og því yrði styttra í að gosið yrði að hraungosi.“

Minnir á Kröfluelda

Páll sagði að atburðarásin við Bárðarbungu minnti sig mest á það sem gerðist við Kröflu á sínum tíma, en jarðhræringarnar við Kröflu stóðu í 15 ár, en eldgos hófst þar árið 1975. Það hefði orðið sig í eldstöðinni sjálfri og í kjölfarið hafi myndast berggangur sem lægi í átt frá henni. „Þessi atburðarrás er því ekki framandi fyrir þá sem fylgdust með Kröflueldum.“

Páll sagði að það væri ekki alltaf auðveldast fyrir kvikuna að komast upp á yfirborðið með því að fara upp í sjálfa öskjuna. Ástæðan væri sú að á Íslandi væri landrek í gangi sem þýddi að það væri að teygjast á flekaskilunum. Það ætti sér stað lágrétt tog í sundur. „Þegar þetta er í gangi er auðveldara fyrir kvikuna að ýta flekunum í sundur, frekar en að komast upp á yfirborð. Svona hrina getur byrjað með kvikuhlaupum og verður síðan meira og meira að gosum eftir því sem á líður. Þetta var það sem gerðist við Kröflu.“

Páll sagði að það sem stjórnaði atburðarásinni næstu sólarhringana væri hversu mikið kvikustreymi yrði inn í bergganginn. Stundum stæði slíkt kvikustreymi lengi eins og í Kröflu þar sem það stóð í 15 ár. Í Eyjafjallajökli hefði það staðið í nokkrar vikur.

Páll EInarsson jarðeðlisfræðingur.
Páll EInarsson jarðeðlisfræðingur. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert