Mat vísindamanna að ekkert gos sé

Bárðarbunga og Jökulsá á Fjöllum.
Bárðarbunga og Jökulsá á Fjöllum. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér yfirlitspunkta yfir atburði dagsins sem hófust klukkan 11:20 í morgun þegar merki sáust um óróa við Bárðarbungu. Er það mat vísindamanna að eldgos sé ekki í gangi. 

Öflug skjálftavirkni hefur haldið áfram í dag líkt og síðustu daga. Upp úr klukkan 14 flaug TF-SIF, flugvél landhelgisgæslunnar að Vatnajökli með sérfræðinga frá Veðurstofunni, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og fulltrúa almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra. 

Flaug vélin yfir Bárðarbungu, Dyngjujökul og Jökulsá á Fjöllum og var skyggnið gott. Yfirborð jökulsins var skoðað með sérútbúinni ratsjá og hitamyndavél. Engin ummerki sáust um eldgos í Dyngjujökli eða Bárðarbungu, né ummerki um flóð við upptök Jökulsár. 

Flugið stóð yfir í nokkra tíma og engar breytingar sáust. Mat vísindamanna er því að eldgos sé ekki í gangi. Vegna áframhaldandi skjálftavirkni og gliðnunar hefur Veðurstofan ákveðið að litakóði fyrir flug verði áfram rauður. Sú ákvörðun verður síðan endurmetin í fyrramálið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert