„Óvenjulega margir í gljúfrunum“

Hlaup mun fara í Jökulsá á Fjöllum.
Hlaup mun fara í Jökulsá á Fjöllum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það eru óvenjulega margir í gljúfrunum. Það er gott veður og margir á ferð,“ segir Hreiðar Hreiðarsson, lögregluvarðstjóri á Húsavík, en verið er að rýma Jökulsárgljúfur vegna hættu á hlaupi frá ánni.

Samkvæmt viðvörunaráætlun var gert ráð fyrir að rýma Kelduhverfi, Öxarfjörð og Jökulsárgljúfrin ef hætta var talin á hlaupi í Jökulsá á Fjöllum í kjölfar eldgoss í Bárðarbungu. Hreiðar segir að ákveðið hafi verið að rýma ekki Kelduhverfi og Öxarfjörð að sinni en einbeita sér að því að rýma Jökulsárgljúfrin. Það sé ærið verkefni því svæðið er stórt og margir á ferð, bæði innlendir og erlendir ferðamenn.

Hreiðar sagði að samkvæmt áætlun hefði verið miðað við að það tæki þrjá klukkutíma að rýma Jökulsárgljúfur. Það ætti eftir að koma í ljós hvort sú áætlun stæðist. Hann sagði að margt fólk væri á svæðinu og sjálfsagt margir sem vissu ekkert af því að það væri farið að gjósa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert