Um 400 manns í Jökulsárgljúfrum

Jökulsárgljúfur
Jökulsárgljúfur mbl.is/Rax

Talið er að um fjögur hundruð manns hafi verið í Jökulsárgljúfrum þegar upplýst var um að eldgos væri væntanlega hafið undir Dyngjujökli. Að sögn Svavars Pálssonar, sýslumanns á Húsavík, er enn verið að rýma gljúfrin en ekki hefur verið tekin ákvörðun um frekari rýmingu.

„Þetta er býsna viðamikil rýming en hún nær einungis til gljúfranna en ekki byggðarinnar sjálfrar og á því svæði, það er gljúfrunum, eru um fjögur hundruð manns. Þetta er að stærstum hluta erlendir ferðamenn,“segir Svavar.

Búið er að senda skilaboð á alla farsíma á þessu svæði en rýming fellst í því að fara inn á svæðið og sækja fólkið, segir Svavar og það er í höndum björgunarsveitarfólks, lögreglu og starfsmanna Vatnajökulsþjóðgarðs. 

Aðspurður um frekari rýmingu í Kelduhverfi og Öxarfirði segir Svavar að áætlanir séu tilbúnar og búið er að kynna fyrir íbúum en að svö stöddu hefur ekki verið talin ástæða til að grípa til þeirra. Hins vegar er búið að senda öllum þeim sem staddir eru á svæðinu aðvörun um að til rýmingar geti komið og þeir beðnir um að fylgjast vel með fjölmiðlum og símum sínum, segir Svavar.

Vega­gerðin er viðbúin því að rjúfa vegi við brýrn­ar yfir Jök­ulsá á Fjöll­um komi til flóðs vegna goss­ins sem nú er talið hafið. Veg­ir verða rofn­ir til að létta álag­inu af brún­um. Tæki eru þegar við brúna á Norðaust­ur­vegi (85) í Öxarf­irði og tæki á leiðinni að brúnni við Grímsstaði á Hring­veg­in­um (1).

Svavar segir að enn hafi ekki verið tekin ákvörðun um að rjúfa vegi við brýr og ekki verði farið í slíkt fyrr en sú aðstaða skapast að það sé talið nauðsynlegt.

Aðgerðarstjórn almannavarna á svæðinu hefur verið að störfum í heila viku og segir Svavar að stjórnin hafi byrjað undirbúning vegna mögulegs eldgoss strax á laugardag fyrir viku þegar jarðskjálftahrina hófst í Bárðarbungu.„Það hefur verið unnin mikilvæg undirbúningsvinna og þess vegna gengur þetta jafn vel og raun ber vitni nú.“

Í vikunni hafa verið haldnir íbúafundir á svæðinu þar sem farið hefur verið yfir áætlanir og viðbrögð vegna mögulegs eldgoss og hlaups í Jökulsá á Fjöllum. 

Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum var stofnaður 1973 með friðlýsingu jarðarinnar Svínadals …
Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum var stofnaður 1973 með friðlýsingu jarðarinnar Svínadals í Kelduhverfi, að viðbættri landspildu á Ásheiði. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert