Metfjöldi stöðubrota á Menningarnótt

Metfjöldi sekta vegna stöðubrota voru gefnar út á Menningarnótt í …
Metfjöldi sekta vegna stöðubrota voru gefnar út á Menningarnótt í ár. Eggert Jóhannesson

Aldrei hefur eins mörgum götum verið lokað fyrir umferð á Menningarnótt og í ár. Bílastæðaverðir og lögreglan áttu því í fullu fangi við að sekta ökumenn sem höfðu lagt bifreiðum sínum ólöglega en í ár gekk metfjöldi stöðubrotasekta út, á 1.060 bíla.

Er um minniháttar fjölgun stöðubrota að ræða á Menningarnótt á milli ára, en sektirnar voru 1.050 í fyrra og var það þá metfjöldi.

Tíu bílastæðaverðir voru á vakt á Menningarnótt eins og í fyrra en það er hlutverk þeirra og lögreglu að sekta þá sem leggja ólöglega. „Það var mjög skýrt tekið fram hvar mætti leggja og að þeir sem ekki virtu það yrðu sektaðir,“ sagði Kolbrún Jónatansdóttir, framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs.

Nokkuð var um að fólk legði bílum sínum á túnblettinum hjá Landspítala, við BSÍ, í Norðurmýrinni og í Vesturbæ og hlaut það sekt fyrir.

Þrátt fyrir að sektum vegna stöðubrota hafi fjölgað milli ára nýttu fjölmargir sér þjónustu Strætó til þess að komast leiðar sinnar. Auk þess gerðu götulokanirnar það að verkum að hlutirnir gengu mun betur fyrir sig og telur Kolbrún að ástandið á götum borgarinnar hafi verið mun betra fyrir vikið þar sem mun auðveldara var að komast leiðar sinnar fótgangandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert