Vilborg ætlar upp á topp án súrefnis

Vilborg Arna hefur tekist á við hinar ýmsu áskoranir síðustu …
Vilborg Arna hefur tekist á við hinar ýmsu áskoranir síðustu ár. Nú ætlar hún upp á topp án súrefnis og aðstoðar. Árni Sæberg

Fjallagarpurinn Vilborg Arna Gissurardóttir hefur svo sannarlega ekki lagt árar í bát, þrátt fyrir að hafa ekki náð markmiði sínu, að toppa Everest í vor. Hún stefndi að því að klífa hæsta tind hverrar heimsálfu á einu ári en eftir hræðilegt slys í hlíðum Everest þar sem 12 sjerpar létu lífið, ákvað hún að snúa aftur heim á leið og reyna ekki við fjallið í bili.

Í sumar hefur Vilborg Arna gengið um í íslenskri náttúru, klifið stór og minni fjöll og leiðbeint öðrum sem vilja upplifa það sem Ísland hefur upp á að bjóða. Hún á nokkrar ferðir með þungan poka að baki og er hún nú tilbúin í næsta ævintýri.

Mesta áskorunin af öllu 

Eftir nokkra daga, laugardaginn 30. ágúst nk., leggur Vilborg Arna upp í leiðangur. Hún ætlar að klífa sjötta hæsta fjall jarðar, Cho Oyu í Tíbet, sem er 8.201 metra hátt. Í þetta skipti ætlar Vilborg Arna að ganga án aðstoðarmanna og án súrefnis. Hún verður ekki ein á ferð, en með í för verður félagi hennar, Atli Pálsson, sem er reyndur leiðsögumaður og fjallgarpur.

Aðspurð segir Vilborg að hún telji þetta vera fyrsta íslenska leiðangurinn sem reynir við áskoranir sem þessar á rúmlega 8.000 metra háu fjallinu. Nokkrir Íslendingar hafa klifið fjallið áður, til að mynda Leifur Örn Svavarsson og Anna Svavarsdóttir, en ekki við sömu aðstæður og Vilborg Arna og Atli stefna á að klífa fjallið við.

Vilborg Arna segir í samtali við mbl.is að þetta hafi lengi blundað í henni. „Það er kannski af því að það er mesta áskorunin af öllu að gera þetta svona,“ segir hún og bætir við að hún eigi margar fyrirmyndir sem hafi tekist á við áskorun af þessu tagi. Vilborg Arna segist einnig hafa haft þörf á að halda áfram eftir Everest, fara aftur inn í aðstæður og ljúka leiðangrinum. 

Styðja hvert við annað í ferðinni

Vilborg Arna hefur nú gengið yfir Grænlandsjökul, farið ein á ferð á Suðurpólinn, klifið mörg hæstu fjöll heimsins og tekist á við hinar ýmsu áskoranir í íslensku og erlendu landslagi. Hún er því reynslumikill fjallagarpur og er Atli það líka, að sögn Vilborgar Örnu. 

Hún bendir á að þau hafi ólíka reynslu og muni þau eflaust ná að styðja hvort við annað í ferðinni. Í ferð sem þessari er hæðin mesta áskorunin þar sem þau muni ekki nýta sér súrefni. Gangan tekur um sex vikur og er ferðin því ekki mikið styttri en leiðangur á Everest.

Aðspurð um hvernig hún hefur hagað undirbúningi fyrir ferðina segir Vilborg Arna að hún hafi gengið mikið með þungan bakpoka síðustu vikur og er hún til að mynda nýkomin heim úr níu daga ferðalagi með poka sem vóg 25 kíló. 

Fjallgöngugarparnir leggja af stað á laugardaginn og hefst leiðangurinn sjálfur fjórum dögum síðar.

Fjallið Cho Oyu í Tíbet er 8.201 metra hátt.
Fjallið Cho Oyu í Tíbet er 8.201 metra hátt. Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert