Afleiðingar árásarinnar mjög alvarlegar

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Hæstiréttur staðfesti í gær gæsluvarðhald yfir karlmanni sem er grunaður um stórfellda líkamsárás í Grundarfirði í júlí. Skal maðurinn sæta gæsluvarðhaldi til 15. september á grundvelli almannahagsmuna. Maðurinn sem varð fyrir árásinni hlaut stórfellda áverka á höfði og er enn á sjúkrahúsi.

Lögreglan á Akranesi, sem fer með rannsókn málsins, segir að maðurinn sé undir sterkum grun um að hafa framið í félagi við annan mann stórfellda líkamsárás gegn ungum manni. Afleiðingar árásarinnar séu mjög alvarlegar og með tilliti til almannahagsmuna sé ekki forsvaranlegt að hann gangi laus. Ríkir almannahagsmunir standi til þess, að þegar svo standi á sem í þessu máli, að menn sem séu sterklega grunaðir um alvarlegt brot gangi ekki lausir. 

Hinn 17. júlí úrskurðaði héraðsdómur manninn til að sæta gæsluvarðhaldi til 20. ágúst. Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn 24. júlí sl.

Í úrskurði Héraðsdóms Vesturlands frá 19. ágúst sl. fór lögreglustjórinn á Akranesi [fram á] að héraðsdómur framlengdi gæsluvarðhaldið. Maðurinn mótmælti kröfunni og krafðist þess að henni yrði hafnað. 

Hlaut þung höfuðhögg

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á Akranesi hafi til rannsóknar stórfellda líkamsárás sem átti sér stað í Grundarfirði um kl. 2:30 aðfaranótt 17. júlí 2014. Þá um nóttina var lögreglu tilkynnt um að maður hafi orðið fyrir líkamsárás við höfnina og að hann væri meðvitundarlaus. Lögreglan fór á vettvang. Þegar hún kom voru sjúkraflutningamenn og læknir að hlúa að manninum sem varð fyrir árásinni. Hann var meðvitundarlaus og var stór blóðpollur á jörðinni þar sem höfuð hans hafði legið.

Maðurinn var skömmu seinna fluttur á brott í sjúkrabifreið og svo var hann fluttur með þyrlu á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Samkvæmt upplýsingum í málinu hlaut maðurinn mjög alvarlega áverka og er hann enn í lífshættu eins og fram kemur í upplýsingaskýrslu lögreglu í málinu, að því er segir í úrskurði héraðsdóms.

Vitni sagði við lögreglu að tveir menn hefðu ráðist á manninn. Umræddir menn voru handteknir klukkan 04:00 sömu nótt og þeim tilkynnt að þeir væru grunaðir um meiriháttar líkamsárás.

Veit ekki hvar hann er staddur

Lögreglan skoðaði myndbandsupptökur af höfninni og þar sjást árásarmennirnir slá brotaþola, en fram kemur að hann hafi hlotið þung högg í höfuðið. Árásin hætti þegar vitni kom aðvífandi. Átökin stóðu yfir í um eina mínútu samkvæmt upptökunni.

Rannsókn málsins er langt komin. Árásarmaðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms frá 19. ágúst, að maðurinn sem ráðist var á sé lamaður vinstra megin í líkamanum og líkur séu taldar á að áverki hans muni valda breytingum á persónuleika hans þótt fullsnemmt sé að segja hverjar þær muni verða. Skammtímaminni brotaþola sé um 1 mínúta og hann viti ekkert um sjálfan sig eða hvar hann sé staddur. Að mati læknis sé það með hreinum ólíkindum að brotaþoli sé enn á lífi en hann hafi sýnt hægar framfarir.

Rannsókn á árás langt komin

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert