Hæna vappaði um á tannlæknastofunni

Þær sinntu tannlækningum í nokkrar vikur í hjálparstarfi við spítala í Bashay-þorpi í Tansaníu. Þetta var mikil lífsreynsla fyrir tannlæknanemana Elísabetu, Láru og Unni og margt bar á góma, í orðsins fyllstu merkingu. Takmarkað rafmagn og frumstæðar aðstæður voru þeim framandi. En þær ætla aftur til Afríku.

Aðstæðurnar voru um það bil eins og við bjuggumst við, því það hafa áður farið tannlæknanemar á þennan spítala og við vissum hverju við ættum von á. En upplifunin og það að vera í þessum aðstæðum er ekkert sem hægt er að búa sig undir fyrr en maður lendir í því,“ segir Elísabet Ásta Bjarkadóttir, ein af þremur tannlæknanemum sem fóru til Tansaníu í vor til að sinna tannlækningum í hjálparstarfi. Elísabet, Lára Hólm Heimisdóttir og Unnur Flemming Jensen voru í fimm vikur í Tansaníu. „Við fórum með um fimmtíu kíló af varningi með okkur til að gefa spítalanum og við vorum stressaðar yfir því að koma hnífsblöðum, nálum og öðru í gegnum flugvellina en það tókst. Fyrsti áfangastaður var Dar es Salaam, þar sem við heimsóttum munaðarleysingjaheimilið Malaika sem rekið er af Íslendingum. Þar búa stúlkur sem við skoðuðum og sömdum svo við tannlæknanema í Háskólanum í Dar um að aðstoða þær með framhaldið. Þaðan flugum við til Bashay-þorpsins, þar sem við dvöldum í nokkrar vikur og störfuðum á tannlæknastofu á spítala, ef tannlæknastofu skyldi kalla, því þar var takmarkað rafmagn og fátt af því sem við eigum að venjast hér á Íslandi. Úrlausnir tannvandamála voru því oft öðruvísi en verið hefði hér heima, til dæmis var erfiðara að bjarga tönnum, við þurftum oft að draga tennur úr fólki sem hefði verið hægt að bjarga með þeim tólum, tækjum og efnum sem við erum vanar hér heima.“

Hænan gerði þarfir sínar á tannlæknastofunni

„Við lentum í svo mörgum og furðulegum aðstæðum að það væri hægt að skrifa um það heila bók. Eitt dæmi er kona sem kom til okkar á tannlæknastofuna beint af markaðinum. Hún var með lifandi hænu í poka sem hún hafði keypt til að hafa í matinn. Hænan vappaði svo um gólfið og gerði þarfir sínar á tannlæknastofunni á meðan konan var í tannlæknastólnum. Hún gleymdi svo að taka hænuna með sér þegar hún fór, en sótti hana síðar um daginn.“

Vinkonurnar þrjár fóru í grunnskóla í þorpinu og tóku einn bekk fyrir, sem í voru um áttatíu krakkar, og rannsökuðu tannheilsu þeirra. „Það kom okkur á óvart hversu góð staðan var á tönnum þessara barna, en fæðan þeirra er ekki eins sykruð og á Vesturlöndum.“ Þær vinkonurnar tóku viðtöl og söfnuðu vatnssýnum frá mismunandi svæðum til rannsóknar í verkefni sem þær eru að vinna í, til að kanna samband flúormagns í vatni og tannheilsu, og í vetur munu þær vinna úr gögnum.

Fyrirburinn lifði ekki

Elísabet segir að vissulega hafi sumt verið erfitt, sérstaklega að verða vitni að fátæktinni. „Við fundum helst fyrir því á spítalanum, að horfa upp á lifandi manneskju og vita að ef hún væri á öðrum stað í veröldinni þyrfti hún ekki að deyja, þá væri hægt að grípa inn í og hjálpa henni. Til dæmis var fyrirburafæðing á spítalanum þegar við vorum nýkomnar, konan var komin sjö mánuði á leið og vandamálin hjá barninu voru af þeim toga að það hefði líklega verið hægt að bjarga þessu barni ef það hefði fæðst á Íslandi. En þarna lifði það ekki nema í tvær vikur. Hreinlæti og annað er ekki á því stigi sem við eigum að venjast og aðstæður allt aðrar.“

Kunna betur að meta lífsgæði

Elísabet segir að Tansanía sé æðislegt land. „Við notuðum helgarnar til að flakka og kynnast landi og þjóð. Fólkið er einstaklega gestrisið, allir eru mjög almennilegir og ljúfir, staldra við og spjalla. Við vorum heillaðar af fólkinu og það sem situr mest eftir að ferðinni lokinni er kynnin af öllu þessa yndislega fólki. Það gaf okkur mikið og kenndi okkur margt um náungakærleika, að vera meira opin fyrir ókunnu fólki. Ég held að það sé sérlega hollt fyrir Vesturlandabúa að fara á framandi slóðir sem þessar og kynnast öðrum aðstæðum en við eigum að venjast. Við urðum oft fyrir því að eitthvað vakti okkur til umhugsunar um hvað við höfum það í raun rosalega gott hér heima. Ég held að allir hafi gott af því að komast niður á jörðina öðru hvoru, því við missum mörg oft jarðsambandið hér í velmeguninni á Íslandi og gleymum því hvað skiptir raunverulega máli í lífinu. Við erum þakklátar fyrir þessar reynslu í Tansaníu. Við hefðum viljað vera lengur. En við erum ákveðnar í að fara aftur saman til Afríku, þó að það verði seinna á lífsleiðinni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert