Hugaði að hæfi sínu til málsins

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Styrmir Kári

Stefán Eiríksson, fráfarandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, tók það fram við umboðsmann Alþingis að frá sínum bæjardyrum séð hafi það sett ýmis mál í annað samhengi gagnvart ráðuneytinu þegar kom að þeim tímapunkti að embætti hans hafi verið falin rannsókn á lekamálinu svokallaða af hálfu ríkissaksóknara. Sjálfur hefði hann hugað að hæfi sínu til að koma að málinu. Þetta kem­ur fram í bréfi umboðsmanns þar sem rak­in er nokk­urs kon­ar yf­ir­heyrsla yfir Stefáni.

Umboðsmaður Alþingis lýsir því í bréfinu að hann hafi átt samtöl við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu vegna athugunar sinnar á málinu. Tók lögreglustjórinn þá fram að það hefði komið ítrekað fram í samtölum sínum við ráðherra að allt sem talað var um væri í fyllsta trúnaði og hann héldi þann trúnað. Aftur á móti liti hann svo á að með hliðsjón af lögum um umboðsmann Alþingis gæti hann ekki annað en svarað öllum spurningum hans um málið og öðru sem því tengist.

Umboðsmaður spurði lögreglustjóra út í fund sem hann átti með ráðherra 18. mars sl. Lögreglustjóri segist ekki muna hvert tilefni þess fundar hafi verið, en segir lekamálið þó án efa hafa borið þar á góma með einhverjum hætti. Í kjölfarið segist hann hafa fengið símtöl og sms-sendingar frá ráðherra næstu mánuðina. „Þá er hún með ýmsar spurningar,“ er haft eftir lögreglustjóranum í bréfinu.

„Held að hún hafi upplifað það þannig að hún hafi farið yfir strikið“

Hann segir spurningarnar hafa verið í tengslum við rannsóknaraðgerðir lögreglu. „Einhverju sinni var gerð athugasemd við það þegar lögreglumenn mættu í ráðuneytið án þess að gera boð á undan sér – en svo var þetta mikið í tengslum við það þegar dómur Hæstaréttar birtist í málinu,“ er haft eftir lögreglustjóra. „Í einu af þeim samtölum þá er hún mjög ósátt við framgöngu lögreglu og rannsóknir og annað í þeim dúr.“ Hann segir ráðherra hafa óskað eftir fundi í kjölfarið, „til þess að undirstrika það að hún sé ekki að reyna að hafa nein áhrif á rannsókn málsins eða annað heldur sé bara að leita eftir svörum við spurningum. Og ég held að hún hafi upplifað það þannig að hún hafi farið yfir strikið, já, a.m.k faglega og líklega bara svona í persónulegum samskiptum, og viljað einhvern veginn slétta það út,“ segir hann.

Frétt mbl.is: „Eruð þið ekki að ganga of langt“

Frétt mbl.is: Óánægð með vinnubrögð umboðsmanns

Frétt mbl.is: „Svo kom gusa af gagnrýni“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert