Nýjar álögur hækki verð á grænmeti

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja á nýjar álögur á innlenda …
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja á nýjar álögur á innlenda framleiðslu á grænmeti. mbl.is

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja á nýjar álögur á innlenda framleiðslu á grænmeti í formi innheimtu gjalds vegna sýnatöku við mælingar á varnarefnum í grænmeti. Kostnaður vegna hennar hefur hingað til verið greiddur af fjárlögum en sýnatakan hefur verið framkvæmd frá árinu 1991. Markmið hennar er að greina notkun á varnarefnum við ræktun á grænmeti til þess að vernda neytendur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sambandi Garðyrkjubænda.

Samband garðyrkjubænda (SG) og Sölufélag garðyrkjumanna (SFG) hafa sterklega lagst gegn væntanlegum álögum þar sem um neytendavernd er að ræða og því að þeirra mati réttlátt að sú vernd sé greidd úr sameiginlegum sjóði landsmanna. „Gjaldið mun auka kostnað ræktenda en óhjákvæmilegt er að það mun valda hækkun á verði grænmetis sem aftur leiðir til hækkunar á verðlagsvísitölu. Þegar gjaldtakan nær hámarki, eftir 1-2 ár, er viðbótarkostnaður íslenskra framleiðenda 5-7 milljónir króna á ári.“ Þetta kemur fram í frétt sem Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri SG, skrifaði um málið á vefsíðu SG fyrr í dag.

Telur Bjarni að í fyrsta lagi sé um mismunun að ræða gagnvart samkeppni að utan. Í öðru lagi bendir hann á að SG hafi haldið því fram að eftirlitið sé neytendavernd og þ.a.l. eigi að greiðast af sameiginlegum sjóðum landsmanna. Í þriðja lagi sé um kláran kostnaðarauka að ræða sem mun fyrr eða síðar lenda á neytendum sem líka eru skattgreiðendur.

Garðyrkjubændur hafa fagnað þessu eftirliti í þágu neytenda þar sem á sama tíma er hægt að fylgjast með niðurstöðum mælinganna. Garðyrkjubændur fagna einnig bættum tækjabúnaði, sem innleiddur hefur verið við mælingarnar, en hann mun auka öryggi í mælingum auk þess að hægt verður að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til mælinga til verndar neytendum.

Samband garðyrkjubænda hvetur því þingmenn til þess að vinna að þeirri lausn sem er á þá leið að viðhalda óbreyttu fyrirkomulagi eins og það hefur verið frá 1991 þar til nú. „Að fjárveitingar til neytendaverndar verði aukin um þessar 5-7 milljónir sem upp á vanta,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert