Sá stærsti hingað til

Þróun skjálftavirkni 16.-25. ágúst
Þróun skjálftavirkni 16.-25. ágúst Elín Esther

Jarðskjálfti upp á 5,7 stig, með upptök í Bárðarbungu, reið yfir skömmu fyrir klukkan hálf tvö í nótt. Þetta er stærsti skjálftinn sem hefur komið frá því hrinan hófst þann 16. ágúst. Skjálftavirknin er hins vegar enn mest í berggangurinn undir Dyngjujökli en hann er nú kominn um 10 km norður fyrir jökuljaðarinn.

Berggangurinn (kvikusprungan) sem liggur frá Bárðarbungu og er nú komin út í Holuhraun, norður fyrir jaðar Dyngjujökuls. Áætlað er að um 300 milljónir rúmmetra af kviku séu í sprungunni.

Að sögn Pálma Erlendssonar, sérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, eru skjálftavirknin enn mjög mikil og ekkert sem bendir til þess að það sé að draga úr henni. 

Hann segir að skjálftavirknin sé enn að færast í norðurátt líkt og verið hefur undanfarið. 
Aðspurður um hvers vegna stóru skjálftarnir verði í Bárðarbungu en flestir skjálftanna eigi upptök sín í hraunganginum undir og við Dyngjujökul segir Pálmi að þessa sé vegna þess að askjan sé í raun að snúast. Togkraftar takist á og gangurinn í norðurleið. Þar er einnig meiri hiti sem þýðir að skjálftarnir verða minni.

Viðbúnaðarstigi hefur ekki verið breytt en stöðufundur verður haldinn líkt og undanfarið klukkan níu og almannavarnafundur í framhaldi af því.

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að ekki sáust neinar breytingar á yfirborði í flugi TF-SIF í gær.

„Ef það er komin hrina í gang í þessu kerfi, í líkingu við Kröfluelda, má reikna með gosum á næstu árum. Hrinan getur staðið í nokkur ár,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur um stöðuna á jarðskjálftasvæðinu, í samtali við Morgunblaðið í dag.

Líkt og kom fram á mbl.is í gær telur vísindaráð almannavarna ekki hægt að segja til um framhaldið en telur þrjá möguleika líklegasta. Sá fyrsti er að innflæði kviku stöðvist og skjálftahrinan fjari út. Í öðru lagi að gangurinn nái til yfirborðs og eldgos hefjist. Líklegast er að það verði við norðurenda kvikusprungunnar og þá hraungos með nokkurri sprengivirkni. Í þriðja lagi er möguleiki að verulegur hluti eða öll gossprungan verði undir Dyngjujökli. Það myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og ef til vill einnig sprengigoss með öskufalli. Vísindamennirnir telja ekki unnt að útiloka aðrar sviðsmyndir, eins og til dæmis gos í Bárðarbunguöskjunni, en líkur á því eru taldar minni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert