Spyr hvort lögreglustjóri segi satt

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég óska eftir afstöðu yðar til þess hvort þarna sé rétt greint frá því sem ykkur fór á milli,“ segir í bréfi umboðsmanns Alþingis til Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, en þar óskar umboðsmaður eft­ir af­stöðu ráðherra til þess hvort rétt sé greint frá sam­skipt­um hennar við lög­reglu­stjór­ann og því sem fór þeirra á milli.

Bréfið sendi umboðsmaður í gær og gerir þar grein fyrir því að hann hafi ákveðið að taka til form­legr­ar at­hug­un­ar sam­skipti ráðherr­ans og lög­reglu­stjór­ans á höfuðborg­ar­svæðinu. Í lok bréfs­ins ósk­ar umboðsmaður eft­ir að inn­an­rík­is­ráðherra lýsi af­stöðu sinni til ým­issa atriða er varða málið og láti honum í té þær skýringar og gögn sem hún telji að geti orðið til að upplýsa málið.

Í yfirlýsingu frá Hönnu Birnu segist hún ekkert hafa að fela í sam­skipt­um sínum við lög­reglu­stjór­ann í Reykja­vík, „en harma að umboðsmaður skuli með fram­setn­ingu sinni gera til­raun til að draga upp óeðli­lega mynd af eðli­leg­um sam­skipt­um og starfs­skyld­um okk­ar beggja“.

Óskar eftir afstöðu ráðherra til siðareglna

Í bréfinu lýsir umboðsmaður lagagrundvelli siðareglna ráðherra, og þá um mælikvarða sem fram koma í siðareglunum og samhengi þeirra við hvað teljist vandaðir stjórnsýsluhættir. Umboðsmaður óskar meðal annars eftir afstöðu ráðherra til þess hvort ákvæði í siðareglum ráðherra hafi gilt um samskipti hennar við lögreglustjórann tengd umræddri lögreglurannsókn. Þá óskar hann eftir afstöðu ráðherra um hvernig það samrýmist vönduðum stjórnsýsluháttum ef samskipti hennar við lögreglustjórann hafi verið eins og hann lýsti þeim. 

Umboðsmaður óskar jafnframt eftir skýringu af hálfu ráðherra um það hvort það að setja fram athugasemdir á borð við þær sem hafðar er eftir lögreglustjóra í bréfinu, á sama tíma og hún fór sem ráðherra með yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, samrýmist hinni óskráðu reglu um sérstakt hæfi. Athugasemdirnar sem átt er við eru meðal annars þær að ráðherra spurðist fyrir um umfang rannsóknarinnar, fyrirvaralausa komu lögreglumanna í ráðuneytið og handlagningu á tölvu aðstoðarmanns ráðherra.

Eins og áður hefur komið fram hefur ráðherra sent frá sér yfirlýsingu, en þar segist hún hafa frest til 10. september til að svara bréfinu. Beiðni um frest til svara hafi verið synjað.

Frétt mbl.is: Óánægð með vinnubrögð umboðsmanns

Frétt mbl.is: „Eruð þið ekki að ganga of langt“

Frétt mbl.is: „Svo kom gusa af gagnrýni“

Frétt mbl.is: Hugaði að hæfi sínu til málsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert