Starfsemin væntanlega svipuð áfram

AFP

Starfsemi Evrópustofu verður væntanlega með svipuðum hætti og hingað til þrátt fyrir þær breytingar sem orðið hafa á rekstrarfyrirkomulagi hennar. Þó kunna að verða einhverjar áherslubreytingar. Þetta kemur fram í svari frá sendiráði Evrópusambandsins á Íslandi. 

Þýska almannatengslafyrirtækið Media Consulta hefur alfarið tekið við rekstri Evrópustofu eins og mbl.is greindi frá á dögunum en áður var hún rekin í samstarfi við Athygli almannatengsl. Ekki náðust hins vegar samningar um áframhaldandi samstarf í sumar og runnu ráðningarsamningar allra starfsmanna Evrópustofu í kjölfarið út en fimm manns störfuðu þar í rúmum fjórum stöðugildum.

Upphaflega var samið um rekstur Evrópustofu árið 2011 til tveggja ára en samningurinn var framlengdur til eins árs á síðasta ári. Hann hefur nú aftur verið framlengdur til eins árs. „Samningurinn við Media Consulta rennur út eftir eitt ár. Þangað til gerum við ráð fyrir svipaðri starfsemi og verið hefur, þó ef til vill með einhverjum áherslubreytingum,“ segir í svari sendiráðs Evrópusambandsins.

Frétt mbl.is: Allir starfsmenn Evrópustofu hættir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert