Flytja þrátt fyrir mótmæli nágranna

Barnahús verður flutt í stærra húsnæði.
Barnahús verður flutt í stærra húsnæði. Eggert Jóhannesson

„Við erum ósköp glöð yfir þessum fréttum og hlökkum til að hefjast handa við flutning,“ segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, en tillaga umhverfis- og skipulagssviðs varðandi breytingu á deiliskipulagi vegna lóðar þar sem starfsemi nýs Barnahúss mun fara fram var samþykkt í dag.

„Vonandi mun þetta fela í sér að við getum hraðað þessari framkvæmd. Vonandi gengur þetta eftir strax á næstu mánuðum að framkvæmdir geti hafist. Ég vona að það sé ekkert sem getur komið í veg fyrir það,“ segir Bragi, en flutningur á starfsemi Barnahúss í stærra og betra húsnæði hefur dregist mikið. Tafirnar má rekja til andstöðu nágranna, sem að því er virðist kærir sig ekki um að starfsemin fari fram í götunni.

Í breytingunni á deiliskipulaginu felst breyting á notkun lóðarinnar úr einbýlishúsalóð í lóð undir starfsemi Barnahúss. Tillagan var grenndarkynnt frá 7. júlí til og með 5. ágúst 2014 og í kjölfarið sendu tveir aðilar athugasemdir. Málið var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagssviðs í dag með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Þurftu að skera niður vegna tafanna

Nýja húsið, Gilsárstekkur 8, var keypt í nóvember á síðasta ári og átti starfsemi Barnahúss að færast þangað strax í ársbyrjun. Ráðnir voru tveir nýir sérfræðingar samhliða flutningunum, en vegna þeirra tafa sem orðið hafa hefur þurft að skera niður á öðrum hliðum starfseminnar í staðinn. „Þessir nýju sérfræðingar voru ráðnir því gert var ráð fyrir því að húsið yrði komið í notkun. Svo dróst það og þá þurftum við í staðinn að loka aðstöðinni til læknisskoðunnar,“ segir Bragi.

„Við ákváðum að loka læknisaðstöðunni tímabundið til að geta nýtt aðstöðuna fyrir þessa nýju sérfræðinga. Við urðum að gera þetta svona þó það sé auðvitað ekki gott að hafa lokað læknisaðstöðunni. Henni verður komið upp um leið og nýja húsið verður tekið í notkun. Þar er mun stærra rými fyrir alla starfsmenn,“ bætir Bragi við.

Stækkun húsnæðis mikilvæg fyrir starfsemina

Í Barnahús koma börn sem grunur leikur á um að hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Ákvörðunin að kaupa nýtt hús undir starfsemina var liður í því að bregðast við því sem kallað var „neyðarástand í kynferðisbrotum gegn börnum“. „Jafnframt réðum við þessa tvo sérfræðinga til að mæta þessari nýju þörf,“ segir Bragi.

Staðan í Barnahúsi nú er svo að um 12-15 börn bíða eftir að komast í viðtal. Bragi segist bjartsýnn á að biðlistar eftir meðferð hverfi fljótlega eftir að flutningar eru afstaðnir. Hann tekur fram að aldrei hafi myndast biðlistar vegna rannsóknarviðtala, sem séu alltaf sett í forgang. Þá verði tvö herbergi til rannsóknarviðtala í nýja húsnæðinu, í stað eins í því gamla.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert