Grunaður um vörslu barnakláms

Í dómi Hæstaréttar, sem felldi hinn kærða úrskurð úr gildi, …
Í dómi Hæstaréttar, sem felldi hinn kærða úrskurð úr gildi, kom fram að fyrir lægi rökstuddur grunur um að maðurinn hefði gerst sekur um refsiverða háttsemi sem varðað gæti fangelsisrefsingu. mbl.is/Sverrir

Hæstiréttur hefur dæmt íslenskan ríkisborgara til að sæta farbanni til 16. september en þann 1. ágúst sl. hafði tollgæslan á Keflavíkurflugvelli afskipti af manninum við komu hans til landsins, en maðurinn en grunaður um vörslu barnakláms.

 Lögreglustjórinn á Suðurnesjum krafðist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að manninum yrði gert að sæta farbanni vegna rannsóknar á ætlaðri refsiverðri háttsemi hans hér á landi. Lögreglustjórinn vísaði í því sambandi til þess að maðurinn væri með lögheimili erlendis og að hætta væri á að hann færi af landi brott.

Í úrskurði héraðsdóms frá 19. ágúst var fallist á að ætla mætti að maðurinn reyndi að komast úr landi eða leynast. Á hinn bóginn taldi héraðsdómur ekki þörf á að maðurinn sætti farbanni, meðal annars með vísan til þess að ekki lægi annað fyrir en að hann kæmi aftur til landsins þótt hann færi utan vegna vinnu sinnar. Var manninum gert að setja fjögurra milljóna króna tryggingu fyrir því að hann mætti til skýrslugjafar hjá lögreglu innan þess tíma sem krafan um farbann gilti og honum bönnuð brottför af landinu þar til slík trygging yrði sett.

Í dómi Hæstaréttar, sem felldi hinn kærða úrskurð úr gildi, kom fram að fyrir lægi rökstuddur grunur um að maðurinn hefði gerst sekur um refsiverða háttsemi sem varðað gæti fangelsisrefsingu, auk þess sem hann væri á reynslulausn vegna dóms sem hann hefði hlotið árið 2010. Því væri fyrir hendi hætta á að maðurinn reyndi að komast úr landi til að koma sér undan rannsókn eða fullnustu refsingar yrði honum ekki meinuð för af landi brott. Var honum því gert að sæta farbanni.

36.000 ljósmyndir sem sýna unga drengi á kynferðislegan hátt

Eins og segir í upphafi fréttarinnar, hafði tollgæslan á Keflavíkurflugvelli afskipti af manninum við komu hans til landsins. Tollgæslan hafði haft grun um að maðurinn hefði í vörslum sínum barnaklám. Við leit í farangri varnaraðila hafi fundist vísbendingar um slíkt og hafi lögregla því verið kölluð til. Lögregla hafi í kjölfarið haldlagt tvær tölvur og sex minnislykla. 

Lögreglustjóri segir rannsókn á hinum haldlögðu munum í fullum gangi. Við skoðun á annarri tölvunni hafi komið í ljós um 36.000 ljósmyndir sem sýni unga drengi nakta og á kynferðislegan hátt. Einnig hafi rannsókn leitt í ljós að maðurinn hafi vistað á tölvum sínum og minniskubbum kvikmyndaskrár, sem síðan hafi verið eytt af tölvunum. Það sé hald lögreglu að kvikmyndaskrárnar hafi innihaldið kynferðisbrot gegn börnum. Lúti rannsókn lögreglu meðal annars að því að endurheimta kvikmyndaskrárnar. Rannsókn á tölvugögnum varnaraðila sé ekki lokið en vænta megi endanlegrar niðurstöðu á næstu vikum.

Dæmdur fyrir kynferðisbrot árið 2010

Þá er vísað til þess, að Hæstiréttur hafi árið 2010 dæmt manninn í þriggja ára og sex mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn ungum dreng. Var manninum veitt reynslulausn 7. desember 2012 í tvö ár á eftirstöðum refsingar samkvæmt dómnum, samtals 420 dögum. Maðurinn sé samkvæmt þessu á reynslulausn fyrir kynferðisbrot gegn barni.

Lögreglustjóri segir að brotin sem maðurinn sé grunaður um séu mjög alvarleg. Rökstuddur grunur sé um að hann hafi brotið gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, nánar tiltekið 210. gr. a. Meint brot varnaraðila varði allt að tveggja ára fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert