Haldi sig frá hræðsluáróðri og ýkjusögum

Framkvæmdastjóri SAF sé mikilvægt að fólk haldi sig við staðreyndir.
Framkvæmdastjóri SAF sé mikilvægt að fólk haldi sig við staðreyndir. mbl.is/Árni Sæberg

„Nauðsynlegt er að menn haldi sig frá hræðsluáróðri og ýkjusögum en leggi áherslu á staðreyndir málsins hverju sinni,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, vegna jarðhræringanna að undanförnu. Hún segir að allir verði að leggjast á eitt og tala af yfirvegum um stöðu mála.

Þetta kemur fram í fréttabréfi Samtaka ferðaþjónustunnar sem gefið var út í dag. Þar segir Helga sú mikla fjölgun ferðamanna sem orðið hefur á Íslandi sé nánast áþreifanleg. „Í þessari fjölgun felast óteljandi tækifæri. Fyrir okkur öll sem í landinu búa er það ómetanlegt að eiga atvinnugrein sem skapar jafn mikil verðmæti, er jafn víðfeðm og þar sem tækifærin eru næstum óþrjótandi.“

Þá kemur hún inn á jarðhræringarnar sem hófust í Bárðarbungu fyrr í mánuðinum. „Þá eru það náttúruöflin sem minna á sig um þessar mundir svo um munar.  Sú reynsla sem við búum yfir frá síðustu árum kemur okkur nú til góða hvað varðar viðbragðsáætlanir og samstarf.  Nú reynir á að allir leggist á eitt og tali af yfirvegun um stöðu mála.  Nauðsynlegt er að menn haldi sig frá hræðsluáróðri og ýkjusögum en leggi áherslu á staðreyndir málsins hverju sinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert