Mokveiði hjá makrílbátum

Mokveiði er hjá makrílbátum sem róa frá Snæfellsbæ. „Í gær sannkallaður landburður hjá flestum bátnum,“ sagði Gunnar Bergmann Traustason, innkaupastjóri hjá Frostfiski.

„Við tökum afla af sjö bátum og ég áætla að hver bátur landi um sjö tonnum í kvöld,“ sagði Gunnar, en það gæti allt eins verið mikið meira miðað við fréttirnar sem berast frá miðunum. Bátarni hafa haldið sig út að Skarðsvík og alveg inn undir að innsiglingunni á Rif og mátti sjá um 20 báta í einum hnapp í kvöld.

Þórður Björnsson, hafnavörður í Ólafsvík, sagði í samtali að aflinn sé mjög góður, sumir bátarnir hafi landað snemma allt að níu tonnum og farið síðan út aftur .

„Fram til dagsins í dag hafa verið landað í höfnum í Snæfellsbæ 3070 tonnum af makríl og eru um 62% af makrílbátum landsins sem róa héðan“ sagði Þórður.

Höskuldur Árnason, skipstjóri á Júlla Páls SH frá Ólafsvík, var að landa 10 tonnum af makríl sem fékkst út af Skarðsvík. „Þetta er algjört ævintýri,“ sagði Höskuldur. „Við fylltum í öll kör og ílát sem fundust um borð, það lá við að sækja þyrfti pottanna hjá kokknum til þess að koma öllum þessum afla fyrir í bátnum,“ sagði Höskuldur brosandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert