Skóflustunga tekin að kísilmálmverksmiðju

Frá skóflustungunni í Helguvík.
Frá skóflustungunni í Helguvík. mbl.is/Hjörtur

Skóflustunga að nýrri kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík á Suðurnesjum var tekin í dag við hátíðlega athöfn. Magnús Garðarsson, framkvæmdastjóri United Silicon, Doron Sanders, stjórnarformaður United Silicon, Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra héldu stutt erindi og gestum var að því loknu boðið upp á léttar veitingar. Athöfnin fór fram á lóð félagsins að Stakksbraut 9 þar sem kísilverksmiðja United Silicon mun rísa.

Framkvæmdir við byggingu fyrsta áfanga verksmiðjunnar munu nú hefjast af fullum krafti en jarðvegsframkvæmdir eru þegar hafnar á svæðinu. Verksmiðjuhúsið verður 41 metra hátt og um 5.000 fermetrar að stærð. Þar inni verður risastór ljósbogaofn sem framleiðir kísilmálminn. Gert er ráð fyrir að starfsemi verksmiðjunnar hefjist á fyrri hluta ársins 2016.

„Allir lykilsamningar verkefnisins eru í höfn. Verkefnið er afar umfangsmikið og mun á uppbyggingartíma skapa allt að 300 störf og um 60 störf eftir að verksmiðjan hefur starfsemi. United Silicon verður mikilvæg stoð í íslensku atvinnulífi sem skapar þjóðarbúinu auknar gjaldeyristekjur til framtíðar,“ segir Magnús Garðarsson, framkvæmdastjóri United Silicon, í tilkynningu.

Áætlað er að framleiðsla hefjist á vormánuðum árið 2016 og nemi 21.300 tonnum á ári. Stefnt er að því að reisa alls fjóra ofna í verksmiðjunni ef næg orka fæst til þess og þá verður verksmiðjan stærsta kísilverksmiðja í heimi.

„Það er búið að tryggja raforku fyrir einn ofn en það eru 35 megavött. Miðað við fjóra ofna þarf kísilverksmiðjan 140 megavött  Við erum búnir að sækja um og fá starfsleyfi fyrir þrjá ofna í viðbót. Verksmiðjan er hönnuð með þessa stækkun í huga. Miðað við fjóra ofna verður framleiðslugetan 85.000 tonn á ári. Við stefnum að því að ná þessari framleiðslu á tíu árum,“ segir Magnús.

Heildarfjárfestingin, miðað við fjóra ofna í rekstri, er um 35 milljarðar króna.  Fjármögnun verkefnisins er samvinna danskra og hollenskra fjárfesta frá Fondel Group, en lánsfjármögnun verkefnisins og ráðgjöf er í höndum Arion banka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert