Cristobal mun berja á Íslendingum

Leifar af fellibylnum Cristobal munu ganga yfir landið á sunnudag. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands mun Cristobal fylgja mikið hvassviðri og úrkoma. Verst verður veðrið sunnanlands og ljóst að binda þarf alla lausamuni tryggilega svo ekki verði skaði af.

„Þessi er haustleg. Hún er djúp og hvöss og mjög vatnsmikil,“ segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands um lægðina. Hann segir að töluverð hlýindi fylgi Cristobal og vísast til muni rigna uppi á hæstu jöklum. Því þurfi engin að óttast snjókomu. 

Hann tekur þó fram að svolítil óvissa sé í spám og í dag er spáð meira hvassviðri en í gær. Von er á fréttatilkynningu frá Veðurstofunni vegna komu Cristobals.

Svona hljóðar spáin fyrir sunnudag sem finna á má vefsvæði Veðurstofu Íslands: „Suðaustan og austan 15-25 m/s. Víða talsverð rigning og mikil úrkoma SA-til á landinu. Heldur hægari vindur undir kvöld. Hiti 10 til 16 stig.“

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert