Gæti orðið langt eldsumbrotatímabil

Flug yfir Vatnajökul
Flug yfir Vatnajökul Friðrik

„Fundurinn var mjög yfirvegaður. Fólk spurði Odd Sigurðsson, jarðfræðing frá Veðurstofunni, um ýmsar sviðsmyndir sem hafa verið settar upp í fjölmiðlum og farið eins vel yfir það og hægt er,“ segir Víðir Reynisson, deildarstjóri Almannavarna, um íbúafund sem var í Ljósvetningabúð í kvöld. Fundinum lauk laust eftir 22 í kvöld.

Fundarmenn voru yfirvegaðir, en Víðir varar við því sem vísindamenn hafi bent á að Ísland gæti verið að sigla inn í eldsumbrotatímabil með auknum fjölda eldgosa.

„Fólk var ekki áhyggjufullt. Flóð í Skjálfandafljóti eru þess eðlis að fólk er síður í lífshættu, það væri frekar að það yrðu búsifjar og fólk lokaðist inni í einhvern tíma. Núna erum við bara búin að vinna ákveðna grunnvinnu með íbúunum eins og að fara yfir rýmingaráætlanir, sem miða við hvern bæ fyrir sig.“

Víðir segir að ekki myndi koma til stórra rýminga ef flóð yrði, auk þess sem allt útlit sé fyrir að nægur tími væri frá því hlaup hæfist þangað til það kæmist þangað sem það myndi valda einhverjum skaða. Þannig er miðað við að það taki hlaup 16 klukkustundir að ná frá jökli til hafs og um 10 tíma að ná til byggða.

„Það er mjög langur tími. Oddur benti líka á að á þessu svæði eru kaflar þar sem áin getur dreift mjög mikið úr sér og minnkað þannig flóðtoppinn. Þetta yrði því ekki beljandi hlaup eins þekkist til dæmis úr Múlakvísl, Jökulsá á Fjöllum eða Skeiðarársandi. Þetta vaknar bara og hækkar smám saman í þessu,“ segir Víðir. „Líf fólks er ekki í hættu.“

Björgunarsveitir enn í viðbragðsstöðu

Víðir segir að þrátt fyrir að engin hætta sé yfirvofandi séu björgunarsveitir á Norðurlandi enn í viðbragðsstöðu. „Menn eru tilbúnir þegar við vinnum á hættustigi. Svo hafa sveitir á Norðurlandinu vaktað lokunarpósta á sólarhringsvöktum.“

Samhæfingarmiðstöð Almannavarna er ekki virk sem stendur, en bæði Neyðarlínan og Fjarskiptamiðstöð eru í sama húsi og fylgjast með því sem gerist. „Svo er bakvakt allan sólarhringinn sem er í reglulegum samskiptum við Veðurstofuna.“

Víðir bendir á að nú sé meðal annars horft til þess að hvíla mannskapinn, en þeir 12 dagar sem skjálftavirkni hefur verið í Vatnajökli hafa tekið töluvert á. „Við þurfum að nota tímann til að hlaða batteríin, en jafnframt halda fullri vöku.“

Landsig í Holuhrauni

Hann segir að ekkert bendi á þessari stundu til að neitt sé að breytast í jöklinum. „Við sáum auðvitað þessar sprungur í Holuhrauni, norðan við Dyngjujökul, í rauninni landsig, á fimm kílómetra löngum og kílómetra breiðum kafla. Þær voru skoðaðar betur í dag. Það bendir til þess að kvikugangurinn gæti verið ofar en talið var áður.“

Ekki er gert ráð fyrir að TF-SIF fari í eftirlitsflug á morgun, en hún er í viðbragðsstöðu. „Það má í rauninni segja að ástandið sé óbreytt síðan í gærkvöldi.“

Lögreglumenn frá sérsveit ríkislögreglustjóra og lögreglunni á Akureyri eru til aðstoðar á Húsavík vegna þeirra aðstæðna sem eru uppi. „Lögreglan er meira á ferðinni og það er töluverður viðbúnaður. Við þurfum að vera tilbúin í að halda þessum viðbúnaði lengi.“

Gæti orðið langt eldsumbrotatímabil

Víðir útilokar ekki, og bendir á það sem vísindamenn hafa sagt, að þeir atburðir sem eru í gangi núna gætu staðið í langan tíma. „Þeir tala fleiri og fleiri um að þetta líkist Kröflueldum, sem stóðu yfir í níu ár. Þar voru 20 innskotsatburðir, hvar af níu enduðu með eldgosi. Við gætum því þurft að endurskoða mönnun og undirbúning Almannavarna á landinu öllu. Við gætum verið að fara inn í mjög eldvirkt tímabil þar sem eldgosum muni fjölga.“

Hann bendir á að þétt hafi verið á milli gosa undanfarin ár, en gæti orðið enn þéttara. „Allur undirbúningur skilar sér samt í því að við verðum bara betri að takast á við framtíðarvanda. Undirbúningurinn skilar sér í sterkara samfélagi,“ segir Víðir.

Flug yfir Vatnajökul
Flug yfir Vatnajökul Friðrik
Frá Samhæfingamiðstöð Almannavarna í gærkvöldi.
Frá Samhæfingamiðstöð Almannavarna í gærkvöldi. Júlíus Sigurjónsson
Magnús Tumi í TF-SIF í gær.
Magnús Tumi í TF-SIF í gær. Friðrik
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert