Mikill áhugi á sköpunarkjarki

Tom Kelley.
Tom Kelley.

„Við vorum með 300 manna sal en miðað við skráningar sem erum við að stefna í 700 manns svo við þuftum að færa okkur yfir í stóra salinn í Háskólabíó og erum mjög spennt,“ segir Karl Guðmundsson, en hann stendur fyrir komu nýsköpunarhugsuðarins Tom Kelly til landsins. Kelly mun halda fyrirlestur um sköpunarkjark í Háskólabíó klukkan 12 í dag.

Tom Kelley var fenginn sérstaklega til landsins í tilefni af útgáfu nýjustu bókar hans og David Kelley, Sköpunarkjarkur (e. Creative Confidence) sem Bergsteinn Sigurðsson þýddi. „Við erum að fagna útgáfu bókarinnar og það hentaði vel að hann var til í að koma og halda fyrirlestur um þetta málefni. Það virðist ná til fólks og fólk virðist vera mjög áhugasamt um sköpunarkjark,“ segir Karl.

Tom er eigandi eins stærsta nýsköpunar og hönnunarfyrirtækis heims, IDEO og hefur skrifað metsölubækur um nýsköpun. Jafnframt heldur hann fyrirlestra víða um heim um sköpunarkjark og nýsköpun. „Hann er mjög eftirsóttur fyrirlesari um nýsköpun og sköpunarkjark,“ segir Karl. Hann segir fyrirlesturinn vera fyrir hvern sem er sem langar að ná betri tengslum við sköpunarkjarkinn í sér. „Við göngum út frá því að allir hafi einhvern sköpunarkjark, það er bara mismunandi á hvaða sviði,“ segir Karl.

Viðburðurinn er haldinn í samvinnu við Símann, Háskóla Íslands og Hönnunarmiðstöð og er öllum opinn. Aðgangur er ókeypis og stendur skráning yfir á skopunarkjarkur.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert