Óróasvæðið breiðir úr sér

Dyngjujökull.
Dyngjujökull. Ljósmynd/Hrafnhildur Stefánsdóttir

Skjálftavirknin hefur verið heldur minni í nótt en síðustu nótt undir Vatnajökli en tveir skjálftar um fjögur stig riðu yfir í nótt. Upptök beggja er í Bárðarbungu líkt og annarra stórra skjálfta að undanförnu. Þrír sigkatlar sáust við yfirlitsflug í gær og eru þeir við suðaustanverða Bárðarbungu.

Að sögn Pálma Erlendssonar sérfræðings á jarðvísindasviði Veðurstofu Íslands, hafa mælst tæplega 400 jarðskjálftar frá miðnætti og eru flestir þeirra í og við kvikuganginn. Virknin er nánast nákvæmlega eins og undanfarið og eins hafa mælst nokkrir litlir skjálftar við Öskju. „Enginn merki eru sjáanleg um meiri óróa,“ segir Pálmi er mbl.is ræddi við hann í morgun. 

Tveir skjálftar, 4,1 og 4 að stærð voru mældir í Bárðarbungu klukkan hálf tvö og hálf fjögur.

Flestir aðrir skjálftar voru staðsettir í nyrstu 10 kílómetrum gangsins og fáeinir smáskjálftar í grennd við Öskju.

Vísindamenn hafa orðið varir við breytingar í norðvestanverðum Vatnajökli. Farið var í vísindamannaflug með TF-SIF yfir jökulinn í gær. Markmiðið með ferðinni var að greina frekar svæðið þar sem jarðskjálftahrinan hefur verið undanfarna daga.

Í fluginu sáust þrír sigkatlar um 4 – 6 km að lengd, 1 km á breidd og 15-20 m djúpir við suðaustanverða Bárðarbungu.

„Ljóst er að þeir hafa myndast eftir að flogið var þarna yfir á laugardag. Katlarnir eru ekki á þekktu sprungusvæði við Bárðarbungu og ekki er talið að þeir séu tengdir bergganginum sem verið hefur að myndast undanfarna daga. Svæðið er við vatnaskil Jökulsár á Fjöllum og Grímsvatna og þar er 400 til 600 metra þykkur ís,“ segir í tilkynningu frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.

Um 30 milljónir rúmmetrar af vatni hafa ekki komið fram. Ekki hefur enn mælst breyting í rennsli Jökulsár og rennsli hennar eðlilegt miðað við árstíma. Merki er um að vatnsborð í Grímsvötnum hafi hækkað síðustu daga en óljóst hvort að það er tengt sigdældunum. Ekki hafa mælst teljandi skjálftar á þessu svæði og enginn órói er á jarðskjálftamælum.

Sigdældir af þessu tagi myndast við eldgos eða jarðhitavirkni undir jökli. Töluverð óvissa er um atburðarás. Mjög greinilega ummerki um atburðina er að finna í Holuhrauninu norðan jökuls og út á sandinn.

Um 5 km langur og 1 km breitt sig hefur myndast fyrir ofan kvikuganginn. Bendir það til þess að kvikugangurinn liggi mun ofar en hingað til hefur verið talið. Örlitilir sigkatlar hafa einnig myndast í jaðri Dyngjujökuls.

Áætlað er að fljúga með TF- SIF aftur yfir svæðið klukkan níu Vænta má frétta af fluginu upp úr klukkan ellefu, samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð almannavarna.

Bárðarbunga og Jökulsá á Fjöllum.
Bárðarbunga og Jökulsá á Fjöllum. Ljósmynd/Landhelgisgæslan
Bárðarbunga.
Bárðarbunga. mbl.is/Árni Sæberg
Landhelgisgæslan tók þessa mynd. Katlarnir hafa myndast af völdum mikillar …
Landhelgisgæslan tók þessa mynd. Katlarnir hafa myndast af völdum mikillar bráðnunar, mögulega eldgoss, en óvíst er hvenær það varð. mynd/Landhelgisgæslan
Saga eldgosa í Öskju
Saga eldgosa í Öskju Elín Esther
Eldgos í Öskju og Kröflu
Eldgos í Öskju og Kröflu Elín Esther
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert