Örvæntingin kraumar undir

Siggi Hlö.
Siggi Hlö. Morgunblaðið/RAX

Leiktíðin hefur ekki farið vel af stað hjá enska úrvalsdeildarliðinu Manchester United og bíða stuðningsmenn liðsins enn eftir fyrsta sigri þess undir stjórn Hollendingsins Louis van Gaal.

Margir stuðningsmenn bjuggust við fyrsta sigri van Gaal síðastliðið þriðjudagskvöld þegar liðið mætti C-deildarliðinu MK Dons í enska deildarbikarnum. Það gekk ekki eftir því Manchester United fékk 4-0 skell og er því úr leik.

„Þarf bara að hreinsa út þennan Moyes-anda“

Sigurður Hlöðversson, eða Siggi Hlö, er formaður stuðningsmannaklúbbs Manchester United á Íslandi. „Það er engin örvænting þó að það sé enginn rólegur yfir þessu,“ sagði Siggi spurður um líðan íslenskra stuðningsmanna liðsins.

Þá segir hann stuðningsmennina hafa trú á nýja stjóranum vegna árangurs hans í gegnum tíðina. „Það er silfursafnið hans sem róar mann niður. Það tekur tíma að búa til nýtt lið og leikmannaglugginn er enn opinn svo við vitum ekki hverjir hans menn verða í vetur,“ segir Siggi.

Nýlega staðfesti Manchester United kaup á Argentínumanninum Ángel Di María fyrir 59,7 milljónir punda og er hann dýrasti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Siggi er ekki viss um réttmæti þeirra kaupa. „Þetta er ekki endilega sá leikmaður sem maður horfir mest til en þegar örvæntingin kraumar treystir maður því að þetta séu kaup ársins,“ segir Siggi.

Siggi segir markmiðið vera að liðið tryggi sér meistaradeildarsæti. „Það þarf bara að hreinsa út þennan Moyes-anda.“

Sigur í vændum?

Þrátt fyrir dræmt gengi liðsins í fyrstu leikjum leiktíðarinnar hefur sala á leiki á vegum stuðningsmannaklúbbsins gengið betur en oft áður. Það má því ætla að stuðningsmenn liðsins séu bjartsýnir á framhaldið.

Næsti leikur liðsins er næstkomandi laugardag gegn Burnley. Siggi er sigurviss og spáir því að leikmenn liðsins taki loks við sér og létti mönnum lundina.

Ángel Di María, dýrasti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, ásamt …
Ángel Di María, dýrasti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, ásamt Louis van Gaal knattspyrnustjóra Manchester United. mbl.is/manutd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert