Rannsóknir á meintum brotum á lokastigi

Fimm ungar konur leituðu til neyðarmóttöku Landspítala fyrir þolendur kynferðisofbeldis …
Fimm ungar konur leituðu til neyðarmóttöku Landspítala fyrir þolendur kynferðisofbeldis um og eftir verslunarmannahelgina. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Rannsókn lögreglunnar á Selfossi á tveimur meintum kynferðisbrotum, á Flúðum og á Selfossi, sem kærð voru eftir verslunarmannahelgina eru nú á lokastigi. Yfirheyrslum er lokið en enn vantar gögn frá sérfræðingum vegna annars málsins.

Þá stendur einnig yfir rannsókn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri á meintu kynferðisbroti sem kært var til lögreglu eftir verslunarmannahelgi. Að sögn lögreglu er rannsóknin á lokastigi og verða gögn málsins send ríkissaksóknara innan tíðar.

Fimm ungar konur leituðu til neyðarmóttöku Landspítala fyrir þolendur kynferðisofbeldis um og eftir verslunarmannahelgina. Meint brot voru framin á Akureyri, Flúðum, í Reykjavík, á Selfossi og í Vestmannaeyjum.

Að sögn lögreglu hefur ekki borist kæra vegna meints brots í Vestamannaeyjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert