Sjö slösuðust í bílveltu - þrír fluttir með þyrlu

Þyrla Gæslunnar var kölluð út vegna slyssins.
Þyrla Gæslunnar var kölluð út vegna slyssins. mbl.is/Árni Sæberg

Sjö erlendir ferðamenn voru um borð í bifreið sem valt á malarvegi í Norðurárdal á fimmta tímanum í dag. Allir um borð slösuðust í veltunni en þrír voru fluttir á slysadeild Landspítalans í Fossvogi með þyrlu. Hinir voru fluttir til Reykjavíkur í sjúkrabifreiðum.

Að sögn lögreglunnar í Borgarnesi barst tilkynning um slysið kl. 16:30. Bifreiðin valt skammt á Norðurárdalsvegi, skammt frá bænum Skarðshamri. Ekki liggur fyrir hvað olli því að ökumaður bifreiðarinnar missti stjórn á henni. 

Þrír hlutu mikil meiðsl og var því ákveðið að óska eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þeir sem hlutu minni meiðsl voru fluttir með sjúkrabifreiðum, sem fyrr segir.

Nánari upplýsingar um líðan fólksins liggja ekki fyrir en svo virðist sem að þetta hafi farið betur en á horfðist í fyrstu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert