Spurningum um ólögmæti enn ósvarað

mbl.is/Ernir

Hagsmunasamtök heimilanna segja að EFTA-dómstóllinn hafi með áliti sínu í morgun tekið undir með samtökunum um að íslenskir dómstólar skuli skera úr um lögmæti verðtryggingar. Spurningum um ólögmæti sé enn ósvarað.

Eins og fram hef­ur komið á mbl.is í morg­un EFTA-dóm­stóll­inn ráðgef­andi álit sitt vegna dóms­máls sem rekið er fyr­ir Héraðsdómi Reykja­vík­ur gegn Íslands­banka hf. Í mál­inu er deilt um hvort verðtrygg­ing­ar­á­kvæði í skulda­bréfi sem gefið var út í tengsl­um við fast­eigna­kaup telj­ist ósann­gjarn samn­ings­skil­máli þannig að því megi víkja til hliðar í skiln­ingi a. – c. liðar í 36. gr. samn­ingalaga nr. 7/​1936, með síðari breyt­ing­um. Um­rædd ákvæði komu inn í samn­inga­lög­in 1995 með inn­leiðingu á til­skip­un 93/​13/​EBE, um ósann­gjarna skil­mála í neyt­enda­samn­ing­um.

Hagsmunasamtök heimilanna segja í tilkynningu, að tvö önnur mál um verðtryggingu séu fyrir dómstólum, annað þeirra sé rekið af Hagsmunasamtökum heimilanna og hitt af Verkalýðsfélagi Akraness. Bæði snúist þau um framkvæmd verðtryggingar hér á landi, það er hvort kynning fyrir neytendum á kostnaði við verðtryggingu sé í samræmi við lög um neytendalán nr. 121/1994. Fram kemur, að lögin feli í sér mjög skýr ákvæði um upplýsingagjöf til neytenda við lántöku.

Þá segir að dómsmál samtakanna sé rekið af félagsmönnum í samtökunum, en samtökin greiði af því allan kostnað.

„Málið fjallar um venjulegt, íslenskt, verðtryggt húsnæðislán sem tekið var hjá Íbúðalánasjóði. Málatilbúnaðurinn snýst um útfærslu verðtryggingar og upplýsingar um hana í lánasamningi þar sem miðað var við 0 % verðbólgu í greiðsluáætlun. Þetta telja samtökin ekki samræmast ákvæðum laga um neytendalán (nr. 121/1994) og á það við um lán til fasteignakaupa frá árinu 2001 þegar neytendalánalögunum var breytt þannig að þau næðu einnig til húsnæðislána. Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur enda telur Neytendastofa, stjórn HH og lögmenn sem komið hafa á málinu það mjög skýrt í íslenskum lögum um neytendalán hvaða upplýsingar þurfa að koma fram í lánasamningum um lánskostnað, þar með talið verðbætur,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir, að álit EFTA-dómstólsins fá því í morgun styðji ákvörðun samtakanna um að ekki væri þörf á áliti frá EFTA vegna dómsmálsins sem samtökin standa að baki, enda séu íslensk lög um neytendalán alveg skýr. Íslenskir dómstólar ættu ekki að vera í neinum vandræðum með að dæma eftir þeim um hið sérséríslenska fyrirbrigði sem verðtrygging neytendalána er.

Efnisleg meðferð í máli Hagsmunasamtaka heimilanna mun fara fram þegar EFTA dómstóllinn hefur skilað ráðgefandi áliti í máli sem Verkalýðsfélag Akraness stendur að baki. Þar er ekki um að ræða húsnæðislán heldur neytendalán án veðs í fasteign. Að öðru leyti er málatilbúnaður mjög sambærilegur við mál Hagsmunasamtaka heimilanna, þ.e.a.s. snýst um upplýsingagjöf til neytenda varðandi verðtryggingu, að því er segir í tilkynningu.

„Hagsmunasamtök heimilanna hafa aldrei haldið því fram að verðtrygging sem slík sé ólögleg milli fagfjárfesta, fjármálafyrirtækja og ríkisins. Þegar hins vegar kemur að lánasamningum við neytendur ber lánveitendum skylda til að standa rétt að upplýsingagjöf í samræmi við lög um neytendalán. Þeirri spurningu hvort rétt hafi verið staðið að þeirri upplýsingagjöf, og þar með hvort útfærsla verðtryggðra neytendalánasamninga sé og hafi verið lögleg hér á landi, er því enn ósvarað,“ segja samtökin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert