Afrituðu kortaupplýsingar fólks

Glæpamenn komu fyrir afritunarbúnaði í hraðbönkum.
Glæpamenn komu fyrir afritunarbúnaði í hraðbönkum. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Hundruðir kortaeiganda hjá Landsbankanum hafa fengið símtal í dag þar sem þeim er ráðlagt að loka kortunum sínum. Viðskiptavinum bankans var ráðlagt þetta eftir að í ljós kom að glæpamenn höfðu komið fyrir afritunarbúnaði í tveimur hraðbönkum á höfuðborgarsvæðinu og komist yfir kortaupplýsingar fjölda fólks. Viðskiptavinir annarra banka hafa einnig fengið sambærileg símtöl. 

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir glæpamennina hafa afritað kortaupplýsingar á hundruðum greiðslukorta bankans. „Við uppgötvuðum fyrir skemmstu að það hafði verið komið fyrir afritunarbúnaði í tveimur hraðbönkum,“ segir Kristján. „Þetta uppgötvuðum við annars vegar þegar verið var að gera við annan hraðbankann og hins vegar þegar gjörningsmennirnir sáust í öryggismyndavél við hinn.“

Kristján segir starfsfólk bankans hafa hringt í alla viðskiptavini sem eiga kort sem notuð voru í öðrum hvorum þessara hraðbanka á þeim tíma sem búnaðurinn var virkur. „Við erum búin að hringja í alla þessa viðskiptavini en höfum ekki náð í alla eins og gengur. Við höfum náð í um 75% og gert þeim grein fyrir þessu og munum halda áfram í dag og um helgina að klára það,“ segir Kristján. 

„Enginn hefur orðið fyrir tjóni“

Að sögn Kristjáns er ekkert sem bendir til þess að upplýsingarnar sem voru afritaðar hafi verið misnotaðar. „Það er ekkert sem bendir til þess að þessir menn hafi náð að nýta sér upplýsingarnar á nokkurn hátt,“ segir hann. „Enginn hefur orðið fyrir tjóni, og svo er það auðvitað þannig að viðskiptamenn sjálfir bera aldrei tjón af svona svikum.“

Kristján segir lögregluna komna í málið, og unnið sé að því að góma mennina. „Við settum okkur strax í samband við lögregluna og kortafyrirtækin og það fór allt á fullt við að reyna að góma þessa menn. Við erum náttúrulega með mynd af þeim en mér er ekki kunnugt um að þeir hafi náðst ennþá,“ segir Kristján.

Fylgjast með notkun kortanna

Að hans sögn er ómögulegt fyrir glæpamennina að nýta sér upplýsingarnar án þess að það komist upp. „Við lokum fyrir allar erlendar færlsur á kortin svo ef þetta væru erlendir aðilar sem eru að senda upplýsingarnar úr landi þá er það gagnslaust. Við fylgjumst nákvæmlega með notkuninni innanlands svo við getum séð hvort kortin eða kortanúmerin eru einhversstaðar í notkun með óeðlilegum hætti,“ segir hann. „Svo erum við að bjóða fólki að loka kortum sínum ef það vill og erum svo að framleiða ný kort fyrir fólk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert