Bíddu, það er ekkert gos!

Sextán klukkustunda ökuferð frá Reykjavík alla leið upp á Vaðöldu við Öskju - lengst upp á hálendi til að sjá ... eiginlega ekkert. Smá gufu. Sjaldan hefur maður lagt jafn mikið á sig fyrir jafn lítið en mikið var þetta nú samt gaman.

Ferðalag Morgunblaðsins á gosstöðvarnar hófst klukkan tvö í nótt til að bruna í Mývatnssveit, á mínar heimaslóðir enda hafði gos í þjóðlendunni Holuhrauni hafist um miðnætti. Í Mývatnssveit hringdi ég í nokkra mæta menn. Allir voru þeir sammála að ég væri nú eitthvað klikk að bruna norður. Gosið hefði nánast verið búið áður en það byrjaði.

Haldið var af stað upp í Möðrudal þar sem Gísli Rafn og Gunnar úr Björgunarsveitinni Stefáni tóku á móti okkur Lögreglan á Akureyri fylgdi í humátt á eftir enda verða blaðamenn að fá fylgd þangað uppeftir. Vísindamenn og nemar þeirra þurfa reyndar enga slíka fylgd og mega fara hvert sem þeir vilja. Bretar eiga reyndar flest alla þessa skjálftamæla sem hafa gefið okkur skýra mynd á umrótinu. Kannski er það þess vegna sem þeir mega valsa um svæðið eins og þeim sýnist.

Jæja. Nú skildu gosstöðvar skoðaðar. Það skipti engu máli þótt Eggert ljósmyndari hefði sofið síðast á miðvikudag og ég náði klukkutíma svefni. Öll þreyta var horfinn.

En það er ekkert grín að komast þessa leið. Það þarf sko fjallabíl og sem betur fer vorum við á LandCruiser frá Bílaleigu Akureyrar. Hann reyndist stórkostlega og fór í gegnum hvaða hindrun sem er.

Við gatnamótin við Brúardali slóst RÚV í hópinn og spennan magnaðist. Eldgos maður minn. Það er ekki á hverjum degi sem maður fær að fylgjast með því. Svo eftir dúk og disk, fjallaferðamennsku, svitalykt, endalaust af kaffi og Skálmöld í tækinu kom að því að standa þarna uppi. Horfa á gosið. Sjá það með eigin augum.

Trúlega hefði verið betra að vera heima. Það var rétt það sem þeir vitru Mývetningar sögðu. Gosið var búið áður en það hófst og nú var bara gufu að sjá - eða svona það glitti í gufuna við Holuhraun rúmum tíu kílómetrum frá í beinni loftlínu. Ef það hefðu verið eldglæringar hefði Vaðalda verið stórkostlegur staður að vera á. Gallinn var, það var ekkert gos. Bara gufa - lengst í burtu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert