Kúnstin að koma verulega á óvart

Glitrandi tinnan í Hrafntinnuskeri og þyrla Reykjavik Helicopters birtist í …
Glitrandi tinnan í Hrafntinnuskeri og þyrla Reykjavik Helicopters birtist í gufunni. mbl.is/Malín Brand

Hjónin Tom og Maureen Dowling hefur lengi langað til Íslands en hingað komu þau fyrr í þessum mánuði í heldur óhefðbundnu fríi. Tom skipulagði ferðina svo leynilega að konan hans hélt að hún væri á leið í matarboð í New York. Tíu tímum síðar voru þau komin til Íslands og fimmtán tímum síðar skoðuðu þau landið úr þyrlu. Þessi óvænta ferð var fimmtugsafmælisgjöf Toms til Maureen.

Eitt af því erfiðasta við að koma öðrum á óvart er sennilega að segja ekki orð um það sem stendur til. Ekki einu sinni þeim sem maður treystir best. Þetta vissi Tom Dowling mætavel en fyrir mörgum mánuðum tók hann að skipuleggja fimmtugsafmælisgjöf sinnar heittelskuðu. Maureen varð fimmtug hinn 17. ágúst og eftir tuttugu og fimm ára hjónaband þekkjast þau Tom orðið býsna vel. Eftir sem áður var hún grunlaus um hið mikla ævintýri sem var í uppsiglingu. Tom greiddi flugfarið með greiðslukorti en gætti þess vel að láta umslagið hverfa þegar reikningurinn kom í pósti. Á laugardeginum 16. ágúst var Tom kaldsveittur að undirbúa flugferðina og fékk börnin þeirra tvö til að hjálpa sér og pakka niður í tösku fyrir Maureen og fara með út á flugvöll fyrr um daginn. Klukkutíma áður en leggja átti af stað út á völl ákvað Maureen að fara út að skokka. „Mér leist nú ekkert á það og var orðinn taugaveiklaður þegar hún kom rennsveitt til baka. Ég sagði henni að við þyrftum aðeins að skreppa og hún yrði bara að fara í sturtu seinna,“ segir Tom brosandi þar sem blaðamaður ræddi við hjónin daginn eftir á Hala í Suðursveit.

Rútuferð reyndist þyrluferð

„Ég rauk allslaus út í bíl í íþróttafötunum, klístrug og ekki upp á mitt besta,“ segir Maureen sem þóttist vita að þau væru á leið í fjölskylduboð í New York. Það var ekki fyrr en þau renndu upp að flugstöðinni að hún áttaði sig á að til stæði að fara í ferðalag.

Þau náðu örlitlum svefni á hóteli í Reykjavík en Tom vakti örþreytt afmælisbarnið eftir tvo tíma því þau voru að fara í ferð. „Ég skildi það sem svo að við værum að fara í rútuferð og vildi ekki fara á fætur,“ segir Maureen og skildi ekkert í hamaganginum. Í anddyri hótelsins var hópur fólks á leið inn í rútu en Tom stöðvaði Maureen þegar hún ætlaði að stökkva um borð því þau yrðu nefnilega sótt.

Hinn útsmogni Tom hafði fengið Friðgeir Guðjónsson hjá Reykjavik Helicopters með sér í lið og höfðu þeir skipulagt átta tíma þyrluferð með viðkomu eða flugi yfir Eyjafjallajökul, Fimmvörðuháls, Þórsmörk, Hrafntinnusker, Landmannalaugar, Heklu, Gullfoss, Geysi, Þingvelli, Kötlu, Dyrhólaey, Kirkjubæjarklaustur, Lómagnúp, Skaftafell, Hvannadalshnjúk, Jökulsárlón og fleira sem einstakt er að sjá úr þyrlu. Hjónin nutu þess til hins ýtrasta að sjá landið úr lofti og voru gjörsamlega heilluð. Sennilega verður erfitt að toppa þessa afmælisgjöf en ljóst er að hennar verður minnst með bros á vör. Sólarhring eftir að Maureen kom inn úr hlaupatúrnum sínum í hitanum í New York stóð hún uppi á nýju hrauni á Fimmvörðuhálsi og velti því fyrir sér hvort hana væri að dreyma. Í hvert skipti sem hún sá prakkaralegan svipinn á eiginmanninum vissi hún að svo var ekki.

Hjónin Tom og Maureen
Hjónin Tom og Maureen Malín Brand
Litadýrðin er mikil og mynstrið í svörtum sandinum fallegt.
Litadýrðin er mikil og mynstrið í svörtum sandinum fallegt. mbl.is/Malín Brand
Hjónin voru undrandi á mannfjöldanum uppi á hálendinu.
Hjónin voru undrandi á mannfjöldanum uppi á hálendinu. mbl.is/Malín Brand
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert