Dæmir skúlptúra í Íran

Steinunn Þórarinsdóttir myndhöggvari.
Steinunn Þórarinsdóttir myndhöggvari. Ómar Óskarsson

Steinunn Þórarinsdóttir myndhöggvari flýgur á mánudag til Íran, þar sem hún verður meðal dómara í alþjóðlegri höggmyndasamkeppni sem stendur nú yfir. Keppnin er liður í alþjóðlegu höggmyndamálþingi í Padide, úthverfi annarrar stærstu borgar Íran, Mashhad. Í Padide á sér stað gríðarleg uppbygging þar sem myndlist kemur mikið við sögu.

„Þetta er mjög spennandi verkefni en umsjónarmaður þess, Behdad Lahooti, hafði samband við mig og bað mig að taka sæti í þriggja manna dómnefnd,“ segir Steinunn.
35 keppendur, þar af átta erlendir, hafa að undanförnu unnið að verkum í fullri stærð og verða úrslit kunngjörð um næstu helgi. Efnið er valfrjálst.

Steinunn segir áhugavert að lokað land á borð við Íran sem sætir viðskiptaþvingunum sé að halda alþjóðlega keppni af þessu tagi en á móti kemur að margir íranskir myndlistarmenn hafi látið að sér kveða undanfarin ár. Nægir þar að nefna Shirin Neshat sem búsett er í New York en hún er þekktust fyrir myndbands- og ljósmyndaverk sín sem mörg hver eru af pólitískum toga. Einnig má geta þess að einn þriggja dómnefndarmanna er Hossein Valamanesh, þekktur íranskur listamaður sem búsettur er í Ástralíu.

„Írönsk menning stendur á gömlum merg og það verður mjög fróðlegt að koma þangað og kynna sér strauma og stefnur. Ég hlakka mikið til,“ segir Steinunn en fyrir liggur að hún fær að skoða ýmsa merka staði í fylgd leiðsögumanns, svo sem hina fornu borg Shiraz. „Ég er byrjuð að æfa mig að bera slæðu en það er algjört skilyrði.“

Behdad Lahooti, stjórnandi verkefnisins hefur sýnt verkum Steinunnar mikinn áhuga. „Það er merkilegt í ljósi þess að oft er því haldið fram að múslimar séu almennt ekki hrifnir af nekt í myndlist,“ segir Steinunn sposk en fígúrur hennar eru iðulega án klæða.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert