Snerist í hálfhring við höggið

Brotlendingin er rannsökuð sem flugslys.
Brotlendingin er rannsökuð sem flugslys. mbl.is/Kristinn

Rannsóknarnefnd samgönguslysa segir að það liggi ekki fyrir hvers vegna fisvél missti afl með þeim afleiðngum að flugmaður vélarinnar varð að nauðlenda henni á Þingvallavegi á fimmtudagskvöld. Karlmaður og kona voru um borð í vélinni en þau hlutu ekki alvarlega áverka þegar vélin brotlenti.

„Það lítur út fyrir hreyfillinn hafi misst afl. Við vitum í rauninni ekki enn út af hverju,“ segir Ragnar Guðmundsson, stjórnandi rannsóknarinnar hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, í samtali við mbl.is. Hann segir ennfremur, að hreyfillinn hafi verið tekinn til frekari rannsókna. Eigendur fisvélarinnar fengu hana hins vegar aftur í hendur eftir að vettvangsrannsókn lauk í fyrrakvöld.

Spurður út í rannsóknina segir Ragnar að atvikið sé rannsakað sem flugslys. „Skilgreining á flugslysi er ekki bara ef það verður slys á fólki, heldur líka ef það verða umtalsverðar skemmdir á loftförunum, sem var í þessu tilfelli.“

Flugmaðurinn og farþeginn voru flutt á slysadeild til skoðunar en þau hlutu minniháttar áverka.

Ragnar segir að atvikið hafi átt sér stað um kl. 18:30 á fimmtudagskvöld. Ekki liggur fyrir hversu lengi vélin hafði verið í loftinu er hún missti afl. Hún hóf sig til flugs frá Hólmsheiði þar sem Fisfélag Reykjavíkur hefur aðstöðu. Vélin brotlenti í kjölfar nauðlendingar á Þingvallavegi í Mosfellsbæ skammt frá hringtorginu við Vesturlandsveg.

Fisvélin var að fljúga skammt frá Þingvallavegi þegar hreyfillinn missti afl. Þá varð flugmaðurinn að leita að lendingarstað og að sögn Ragnars sá flugmaðurinn ákjósanlegan lendingarstað á vegi sem liggi þvert yfir Þingvallaveginn. „Hann hafði því miður ekki nægilegt afl til þess að ná þangað inn,“ segir Ragnar.

Vélin lenti því norðanmegin við Þingvallaveg og rakst annar vængurinn í ljósastaur við brotlendinguna. Það varð til þess að vélin snerist í hálfhring við höggið og stöðvast á veginum. 

Umferð var á veginum þegar atvikið átti sér staðan en engan annan sakaði.

Þingvallavegi var lokað í kjölfarið brotlendingarinnar og umferð beint um Helgadalsveg. Vettvangsrannsókn stóð yfir í nokkrar klukkustundir og var vegurinn aftur opnaður fyrir umferð um kl. 22.

Á slysadeild eftir brotlendingu

Fisvél hlekktist á við lendingu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert