Átökin um DV harðna

Reynir Traustason og Sigurður G. Guðjónsson.
Reynir Traustason og Sigurður G. Guðjónsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Átökin um DV fara harðandi. Sigurður G. Guðjónsson rakti atburðarásina í gær í pistli á Pressunni, þar sem hann skrifaði meðal annars: 

„Svona í Sandkornsstíl DV getur sagan af lánveitingunni hljóðað einhvern veginn á  þennan veg: Reynir fór á fund útgerðarmanns sem átti í deilum við annan. Sá sem Reynir fór til lét Reyni fá fé. Og blaðið jafnvel líka. DV fór í framhaldi að segja frá deilum útgerðarmannanna á forsendum þess sem borgaði.

Þannig vinnur mafían og þannig segir sagan að Reynir Traustason vinni. Sel hana ekki dýrara en ég keypti hana.“

Grafalvarlegar ásakanir

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, greip þessa frásögn Sigurðar á lofti og skrifaði á vefsvæði sitt:

Fáum dylst að hér ræðir Sigurður G. það sem hingað til hefur eingöngu verið hvíslað um manna á milli í lúkörum og heitum pottum. Það er að segja að Guðmundur Krisjánsson í Brimi hafi afhent Reyni Traustasyni 15.000.000 kr. í þeim tilgangi að losa sjálfan sig við umfjöllun um ýmis  mál og fá í staðin umfjöllun um meðeigendur sýna i Vinnslustöð Vestmannaeyja og þá helst Sigurgeir Brynjar (Binna í Vinnsló).  Hér skýtur Sigurður G. fast úr báðum hlaupum.“ 

Elliði heldur áfram:

„Ef satt reynist að Guðmundur í Brim hafi afhent Reyni Traustasyni 15 milljónir í þeim tilgangi að kaupa sér óvægna og skaðlega umfjöllun um andstæðing sinni í viðskipum þá er það alvarlegt.

Ef fjölmiðli er beitt markvisst til að pönkast á óvildarfólki fjársterkra aðila og taka það niður þá er það alvarlegt.

Ef einn af stærstu hluthöfum hlutafélags notfærir sér upplýsingar sem hann kemst yfir í gegnum trúnaðarstöðu sína til að skaða meðeignendur sýna þá er það alvarlegt.

Ef Vinnslustöð Vestmannaeyja og meirihluti eigenda hefur orðið fyrir markvissum árásum DV í þeim tilgangi að skaða þá er það alvarlegt. Það er ekkert annað en aðför að starfsmönnum, eigendum og samfélaginu í Eyjum í heild.

Ásökun Sigurðar er grafalvarleg og vart við öðru að búast en að þetta mál verði skoðað í kjölinn. Verðlaunablaðamenn hljóta að taka þessu alvarlega og krefja Guðmund í Brimi og Reyni svara. Þangað til veit maður ekki hvað er satt í þessu máli.“

Pistill Elliða í heild

Pistill Sigurðar í heild

Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum
Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert