Aftakaveður á hálendinu

Langt er síðan rignt hefur jafn mikið í Reykjavík og …
Langt er síðan rignt hefur jafn mikið í Reykjavík og í dag. mbl.is/Golli

„Það er aftakaveður á hálendinu og ekkert ferðaveður,“ segir Þorsteinn Jónsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Gríðarlegt úrfelli er á Suðausturlandi og rigndi í morgun 26 mm á einum klukkutíma í Kvískerjum.

Úrkoma í Reykjavík síðasta sólarhringinn var 47 mm sem er óvenjulega mikið að sögn Þorsteins. Langt sé síðan svo mikil úrkoma hafi fallið í borginni. Enn meira hefur rignt í Bláfjöllum, en þar hefur rignt um 80 mm.

Þorsteinn segir að það sé að draga úr úrkomu á Suðvesturlandi, en hún sé að aukast austar á landinu samhliða því að lægðin gengur yfir landið. Búið sé að rigna 65 mm í Kvískerjum og þar eigi eftir að rigna mikið í kvöld og nótt.

Þorsteinn segir að veðrið sé að ganga niður á SV-landi, en það verði nokkuð hvasst þar á morgun.

Margir hafa haft hug á að fara upp á hálendið í dag, en Þorsteinn segir að þar sé ekkert ferðaveður. Það verði ekki fyrr en í kvöld sem óhætt sé að leggja af stað á hálendisvegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert