Opnaði veitingastað því enginn vildi ráða hana í vinnu

María Socorro Grönfeldt hefur rekið Dússabar síðan 1997.
María Socorro Grönfeldt hefur rekið Dússabar síðan 1997. mbl.is/Árni Sæberg

Árið 1997 voru ekki margir asískir veitingastaðir á Íslandi. Því þótti það nokkuð sérkennilegt þegar einn slíkur spratt upp í Borgarnesi árið 1997. Um var að ræða filippseyska veitingastaðinn Matstofuna sem heimamenn kalla alla jafna Dússabar og var hann fyrsti filippseyski matsölustaðurinn á Íslandi. Eigandi staðarins er María Socorro Grönfeldt frá Filippseyjum, sem gengur undir nafninu Cora meðal heimamanna.

Cora kom til Íslands frá Filippseyjum árið 1987 og eldar á Dússabar filippseyskan mat á vestrænan máta. Sjálf segist hún ekki hafa lært að elda fyrr en hún kom til Íslands. Lærði hún að elda af þeim kokkum sem fyrst unnu á Matstofunni áður en hún tók við eldamennskunni sjálf. „Ástæðan fyrir því að staðurinn er hér er vegna þess að maðurinn minn er héðan,“ segir María.

Skin og skúrir

„Árið 1997 vildi enginn ráða mig í vinnu þótt ég hefði verið á Íslandi í tíu ár. Maðurinn minn er rafvirki og það varð sífellt erfiðara að ná endum saman. Þá datt okkur í hug að reyna að vinna fyrir okkur sjálf. Því ákváðum við að opna þennan stað sem ég gat unnið á,“ segir María.

Síðan eru liðin 17 ár og að sögn Maríu hafa skipst á skin og skúrir í rekstrinum en alltaf gangi þetta einhvern veginn. „Áður fyrr komu heimamenn ekki hingað. Þeir vildu frekar vera heima hjá sér og elda. En núna hefur þetta svolítið breyst og margir panta mat sem þeir koma svo og sækja. Borgnesingar hafa lært að meta bragðið,“ segir María.

María segist upplifa sig sem hluta af samfélaginu en það hafi ekki verið svo fyrr en hún gat farið að vinna fyrir sér. „Ég hafði aldrei eldað neitt þegar ég kom til Íslands. Amma og mamma gerðu alltaf matinn heima. Í menntaskóla fórum við að vísu í heimilisfræði en ég var alltaf svo lítil að ég var bara látin hjálpa til en fékk eiginlega ekki að gera neitt sjálf,“ segir María og hlær. „Svo var þetta ekkert vandamál á Filippseyjum. Ef ég var svöng fór maður út á götu og fékk ódýran götumat. Ég hélt að það væri eins á Íslandi. Ég var svo svöng að ég hamstraði mat þegar ég komst í hann,“ segir María og hlær innilega.

Þegar hún opnaði veitingastaðinn lærði hún hins vegar eldamennskuna. ,,Ég þekkti filippseyska bragðið en lærði í raun að búa matinn til á Íslandi. Þess vegna er maturinn einhvers konar sambland af íslenskri og filippseyskri matargerð,“ segir María.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert