Gosið hagar sér eins og Kröflueldar

Hraunið sem kom úr sprungunni í morgun er orðið 10 …
Hraunið sem kom úr sprungunni í morgun er orðið 10 til 20 sinnum stærra en hraunið sem rann um daginn. Ljósmynd/Ármann Höskuldsson

„Þetta hagar sér alveg eins og í Kröflueldum,“ segir Ármann Höskuldsson, jarðvísindamaður á Raunvísindastofnun, en hann fór að eldstöðvunum í Holuhrauni í morgun. Hann hefur hins vegar ekkert séð í eldgosið síðustu klukkutímana vegna moldroks.

Eldgosið sem hófst 29. ágúst stóð aðeins í fjóra klukkutíma. Ármann sagðist frekar eiga von á að eldgosið væri enn í gangi, en um það væri þó ekkert hægt að fullyrða. Menn yrðu að bíða þangað til veðrið gengi yfir. Það er aðeins byrjað að rigna á svæðinu og þá má búast við að dragi úr moldroki.

„Þetta er ekki óvænt,“ sagði Ármann um gosið sem hófst í morgun. „Það er gliðnunarhrina komin í gang. Við þekkjum eina gliðnunarhrinu tiltölulega vel, sem er Kröflueldar. Þetta hagar sér alveg nákvæmlega eins. Fyrst koma bara títluhraun. Nú er þetta orðið 10 til 20 sinnum stærra hraun og það er að stækka. Við vonum bara að það gosið hlaupi ekki undir jökul.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert