Innflutt nautakjöt fyrir 500 milljónir

Hér á landi eru blendingar af Galloway-, Aberdeen Anges- og …
Hér á landi eru blendingar af Galloway-, Aberdeen Anges- og Limousine-kyni. Bændur segja sárlega vanta nýtt erfðaefni í stofnana. mbl.is/Árni Sæberg

Það sem af er þessu ári hafa verið flutt inn um 540 tonn af nautakjöti og er andvirði þess nærri hálfur milljarður króna. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landsambands kúabænda, segir að stjórnvöld beri talsverða ábyrgð á þessum innflutningi vegna þess að þau hafi neitað framleiðendum um að flytja inn holdasæði til kynbóta.

Árið 2009 var lögum á Alþingi breytt til þess að auðvelda svínabændum að flytja inn erfðaefni til kynbóta. Í kjölfarið óskaði Landssamband kúabænda eftir heimild til að flytja inn sæði úr holdanautum með sambærilegum hætti og svínabændur voru að gera. Baldur Helgi sagði að Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra hefði ekki verið tilbúinn til að samþykkja innflutning á holdanautasæði. Hann hefði hins vegar árið 2011 skipað nefnd til að skoða málið. Sú nefnd hefði starfað í eitt og hálft ár en ekki skilað neinum tillögum um hvernig þessi innflutningur gæti farið fram. Landsamband kúabænda hefði í kjölfarið lagt fram nákvæmar tillögur um þennan innflutning. Bændur hefðu vonast eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra veitti undanþágu frá lögum og heimilaði þennan innflutning, en hann hefði lýst því yfir að fyrst þyrfti að breyta lögunum. Væntanlega verður frumvarp þess efnis lagt fram á þinginu í haust.

Sæðið kemur af kynbótanautum sem eru í sóttkví

Baldur Helgi sagði almenna samstöðu um að rétt væri að heimila innflutning á sæði af holdanautum til kynbóta. Skiptar skoðanir væru hins vegar um innflutning á erfðaefni til kynbóta á mjólkurkúm. Hann benti á að í landinu væri holdanautastofn og allir gerðu sér grein fyrir yfirburðum hans til nautakjötsframleiðslu í samanburði við gripi af íslenska stofninum. Mikil skyldleikaræktun væri í holdanautastofninum og nauðsynlegt að fá innflutt erfðaefni til að kynbæta hann.

Baldur Helgi sagði að bæði Matvælastofnun og Landssamband kúabænda hefðu látið rannsaka hvort einhver áhætta fylgdi þessum innflutningi í sambandi við sjúkdóma og niðurstaða beggja aðila væri að áhættan væri hverfandi. Hann sagði að rætt væri um að fá sæði af nautum sem væru í sóttkví erlendis. Verið væri að senda sæði af þessum nautum út um allan heim og því afar vel fylgst með heilbrigði dýranna. Hægt er að fá kyngreint sæði og DNA-greina kálfana.

Baldur Helgi sagði að nú benti margt til þess að vatnaskil væru að verða í kynbótastarfi í heiminum. Þar kæmi tvennt til. „Annars vegar er það innreið sameindaerfðafræðinnar í kynbótastarfið, með svokölluðu úrvali á grunni erfðamarka (e. genomic selection). Það byggir í stuttu máli á því að keyrðar eru saman niðurstöður DNA-greininga á gripunum og gögn úr hefðbundnum afkvæmaprófunum, eins og við þekkjum þau. Þetta gerir mönnum kleyft að ákvarða kynbótagildi gripanna með sæmilegu öryggi á fyrstu dögum ævi þeirra, í stað þess að bíða í 5-7 ár eftir niðurstöðum afkvæmaprófana. Til þess að öryggi matsins sé viðunandi þarf niðurstöður DNA greininga og afkvæmaprófana úr mjög miklum fjölda gripa, helst nokkur þúsund nautum. Því er ekki til að dreifa hér á landi; nautafjöldi í afkvæmaprófun er á bilinu 25-30 á ári.

Þannig stendur kúabændum í nálægum löndum til boða að kaupa sæði úr „reyndum“ nautum, sem eru tveggja ára gömul, eða þar um bil. Þessar aðferðir munu leiða til þess að kynslóðabilið styttist verulega og erfðaframfarir aukast samhliða því. Þær er einnig farið að nota til að velja nautsmæður og ásetningskvígur af meira öryggi en áður.

Hitt atriðið er kyngreining á sæði. Aðferðir til þess hafa verið þekktar í nokkur ár og fer notkun á slíku sæði vaxandi í nágrannalöndunum. Með þeim er hægt að stýra kyni kálfsins; kvígukálfar til mjólkurframleiðslu og nautkálfar til kjötframleiðslu. Mér er minnisstæð heimsókn til kúabænda á Sjálandi fyrr á þessu ári sem hafa tekið þessa tækni í þjónustu sína. Nú geta þau verið nokkuð örugg um að fá kvígur til ásetnings undan bestu kúnum og 1. kálfs kvígunum. Með því móti myndaðist talsvert svigrúm til að sæða lakasta hluta kúnna með holdanautasæði og var það nýtt; blendingskálfarnir sem þetta skilaði af sér voru með tvöfaldan vaxtarhraða á við hreinræktaða kálfa af mjólkurkúakyninu, Jersey í þessu tilfelli. Ekki þarf að fjölyrða um hin fjárhagslega ávinning sem það felur í sér fyrir nautakjötsframleiðsluna,“ sagði Baldur Helgi, sem fjallaði nánar um framfarir sem eru að verða í kynbótastarfi í heiminum í pistli á heimasíðu kúabænda.

Búið að vara við kjötskorti

Baldur Helgi sagði að farið færi að nota þessa nýju tækni í Skandinavíu og víðar. Hann sagði að íslenskir kúabændur vildu vera í fremstu röð í kynbótastarfi, en þeir væru það ekki lengur. Hann sagði að Landssamband kúabænda væri búið að vara við því í mörg ár að sú staða kynni að koma upp að skortur yrði á nautakjöti vegna þess að stofninn væri ekki nægilega góður. Stjórnvöld hefðu ekki verið tilbúin til að hlusta á þessi sjónarmið fyrr en núna þegar farið væri að flytja inn hundruð tonna af nautakjöti fyrir hundruð milljóna króna. Ef stjórnvöld hefðu heimilað kynbætur á stofninum 2009 væri ekki verið að flytja inn allt þetta kjöt í dag.

Það sem af er þessu ári hafa verið flutt inn …
Það sem af er þessu ári hafa verið flutt inn um 540 tonn af nautakjöti, að andvirði nærri hálfur milljarður króna. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda.
Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert