Mikill erill hjá SHS vegna vatnsleka

Slökkviliðsmenn að störfum. Úr safni.
Slökkviliðsmenn að störfum. Úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Mikill erill hefur verið hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins (SHS) vegna vatnsleka en liðsmenn þess hafa sinnt 37 útköllum vegna leka á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan sex í morgun. Um þriðjungur útkallanna hefur verið í Túnunum í Reykjavík.

Að sögn varðstjóra hjá SHS hefur verið mikill erill frá klukkan 06:00 til um 17:30 í dag. Samhliða útköllum vegna leka hafa liðsmenn SHS sinnt á þriðja tug sjúkraflutninga. 

Hann segir að flest verkefnin, um það bil eitt af hverjum þremur, hafi verið í Túnunum í Reykjavík. Varstjóri segist ekki hafa nákvæma skýringu á því hvers vegna flest lekamálin hafi komið upp þar, en þar voru allar frárennslislagnir fullar þegar slökkviliðsmenn sinntu verkefnum þar.

Einnig var farið í verkefni í Kópavogi, Árbæ, Breiðholti og Vesturbæ. 

Ljóst er að talsvert tjón hefur orðið í húsum vegna vatnsflaumsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert