Yfir 500 skjálftar frá miðnætti

Frá flugi yfir gosstöðvarnar í gær.
Frá flugi yfir gosstöðvarnar í gær. mbl.is/Eggert

Yfir 500 jarðskjálftar hafa mælst á Bárðarbungusvæðinu frá miðnætti. Tveir stórir skjálftar mældust í öskju Bárðarbungu. Sá fyrri varð kl. 00:18 í nótt af stærðinni 3,8 en sá síðari kl. 12:01 á hádegi upp á 5,1.

Vísindamenn voru á svæðinu þegar gosið hófst vegna uppsetningar á mælitækjum. Þeir hafa nú snúið til byggða vegna óveðursins á svæðinu. 

Þetta kemur fram í nýjustu stöðuskýrslu Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Hraungos hófst í Holuhrauni, líklega upp úr kl. 04:00 í nótt, á sama stað og gaus fyrir tveimur dögum. Sprungan virtist vera u.þ.b. 1,5 km löng. Tekið var eftir því á vefmyndavél Mílu um 05:51. Færri skjálftar fylgja gosinu en því fyrra, en meira hraun kemur upp.

Hraunstraumurinn var u.þ.b 1 km breiður og um 3 km langur til norðausturs um kl. 07:30. Hraunið er talið nokkurra metra þykkt og flæðið var að líkindum um 1000 m3 á sek.

Skjálftavirkni hefur verið lítil á gossvæðinu. Um 500 skjálftar hafa mælst á svæðinu, sá stærsti 5,1 í Bárðarbunguöskjunni. Óveður á svæðinu gerir það að verkum að minni skjálftar greinast verr.

GPS-mælingar sýna áframhaldandi gliðnun á svæðinu norðan Dyngjujökuls. Gasbólstrar rísa frá sprungunni í nokkur hundruð metra hæð.

Veðurskilyrði gera erfitt að fylgjast með gosinu en vísindamenn eru á staðnum og nota hvert tækifæri til þess að afla upplýsinga um kviku- og gasútstreymi.

Athugað verður hvort hægt er að fljúga yfir gosstöðvarnar síðar í dag en veður hamlar flugi í augnablikinu.

Aðgerðin er enn á hættustigi. Ekki er talin ástæða til þess að flytja aðgerðina yfir á Neyðarstig almannavarna að svo stöddu.

Lokun lögreglustjóranna á Húsavík og Seyðisfirði á hálendinu norðan Vatnajökuls er enn í gildi. Allir vegir inn á svæðið eru einnig lokaðir. Ákvörðunin er fyrst og fremst í varúðarskyni.
Veðurstofa Íslands hækkaði viðvörunarstig fyrir flugmálayfirvöld vegna Bárðarbungu í rautt um leið og gosið hófst. Askja er enn á gulu.

Isavia hefur gefið út flugbannsvæði sem nær frá jörðu og upp í 6000 fet (2 km) á svipuðum slóðum og fyrir gosið á föstudaginn. Svæðið hefur engin áhrif á flugvelli landsins og eru allir flugvellir opnir.

Eins og staðan er núna er engin hætta á flóði.

Vísindamenn voru á svæðinu þegar gosið hófst vegna uppsetningar á mælitækjum. Þeir hafa nú snúið til byggða vegna óveðursins á svæðinu. Samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð og aðgerðastjórnin á Húsavík auk vísindamanna Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar HÍ fylgjast náið með þróun mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert