Andri Snær verðlaunaður

Andri Snær Magnason við verðlaunaafhendinguna í dag. Með honum á …
Andri Snær Magnason við verðlaunaafhendinguna í dag. Með honum á myndinni eru þær Unnur Brá Konráðsdóttir, alþingismaður og formaður Vestnorræna ráðsins, og Dagný Kristjánsdóttir, formaður vestnorrænu dómnefndarinnar. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Vestnorræna ráðið veitti í dag Andra Snæ Magnasyni barna- og unglingabókaverðlaunin 2014 fyrir bókina Tímakistuna. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu. Þrjár bækur voru tilnefndar til verðlaunanna, ein frá hverju landi; grænlenska bókin Nasaq teqqialik (Töfraskeytið) eftir Kathrine Rosing og færeyska bókin Flata kaninin (Flata kanínan) eftir Bárð Oskarsson. Íslenska bókin varð fyrir valinu.

„Tímakistan er ævintýri sem gerist á tveimur tímasviðum. Á fortíðarsviðinu er sagt frá konungi sem elskar dóttur sína svo heitt að hann vill gefa henni eilífa æsku og sigra heiminn fyrir hana. Hann stendur við orð sín en um leið hefur hann engan tíma til að ala dóttur sína upp heldur geymir hana í töfratímakistu sem stöðvar tímann, meðal annars vegna þess að kónginum finnst hann ekki nógu góður handa prinsessunni. Á nútímasviðinu er búið að fjöldaframleiða tímakistuna sem allir geta keypt sér til að flýja í þegar tímarnir verða viðsjárverðir og það er svo að segja alltaf, sagði Dagný Kristjánsdóttir meðal annars í ávarpi sínu til Andra Snæs Magnasonar. Hann hefur raunar, einn rithöfunda, unnið verðlaunin áður, árið 2002. Það var fyrir bókina Sagan af bláa hnettinum,“ segir í greinargerð Dagnýjar Kristjánsdóttur, formanns vestnorrænu dómnefndarinnar, um valið.

Vegleg peningaverðlaun upp á 60 þúsund danskar krónur fylgja auk heiðursins. Tilgangurinn með verðlaununum er að styðja við bókmenntir á Vesturnorðurlöndum og hvetja og örva rithöfunda sem nota hæfileika sína í að skapa barna- og unglingabókmenntir samkvæmt fréttatilkynningu.

Dómnefnd Vestnorræna ráðsins skipuðu einn dómari úr hverri dómnefnd aðildarlandanna; Dagný Kristjánsdóttir frá Íslandi, Oddfríður Marni Rasmussen frá Færeyjum og Vera-Lise Rosing Olsen frá Grænlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert