Atli Þór á fund fjölmiðlanefndar

DV
DV Sverrir Vilhelmsson

Átökin sem blossað hafa upp sökum 15 milljón króna lánveitingar frá félagi í eigu Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims hf., til Reynis Traustasonar, ritstjóra DV, halda áfram að taka á sig mynd en nú hefur fyrrum blaðamaður DV, Atli Þór Fanndal, gefið í skyn að hann búi yfir upplýsingum sem gætu varpað nýju ljósi á málið.

Þetta gerði hann á fésbókarsíðu Fjölmiðlanörda um helgina en þar bregst hann við færslu Kristins Hrafnssonar sem kallar meðal annars eftir viðbrögðum þess fyrrnefnda.

„Á mánudag mun ég ræða við starfsmann fjölmiðlanefndar og skýra frá því sem ég veit. Það er fjölmiðlanefndar að hafa eftirlit með starfsemi fjölmiðla. Hennar skylda er að upplýsa um raunverulegt eignarhald fjölmiðla og fylgjast með leyndum viðskiptaboðum. Nefndin er vissulega veik sökum smæðar en hefur þó rannsóknarheimildir sem mögulega eiga við hér. Þetta er mitt innlegg í umræðuna um þetta mál,“ segir Atli Þór.

Málið tekið upp á fundi fjölmiðlanefndar

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, staðfesti í samtali við mbl.is að umræddur fundur hefði átt sér stað og ræddi hún við Atla Þór í gegnum síma þar sem sá síðarnefndi er staddur erlendis. Elfa vildi ekki gefa frekari upplýsingar varðandi það hvað fór þeirra á milli en segir nefndina taka málið fyrir.

„Fjölmiðlanefnd efnir til fundar í hádeginu í dag þar sem ég mun skýra nefndinni frá því sem kom fram í samtali okkar Atla. Það er síðan nefndarinnar að taka ákvörðun út frá þeim upplýsingum,“ segir hún. Aðspurð að því hvort nefndin geti beitt sér í viðkomandi máli ef þess þarf, eins og Atli Þór efast um í færslu sinni, segir hún það verða að koma í ljós.

„Við erum bara að skoða þessi mál, við höfum að sjálfsögðu verið að fylgjast með fréttum. Fundurinn í hádeginu var ekki skyndifundur sökum upplýsinga Atla Þórs heldur var hann ákveðinn fyrir nokkuð löngu. Sambærilegir fundir eru alltaf á mánudögum á nokkurra vikna fresti. Þetta er bara eitt af þeim málum sem þar verða á dagskrá,“ segir hún.

Reynir Traustason, ritstjóri DV.
Reynir Traustason, ritstjóri DV. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert