Gosið enn í fullum gangi

„Gosið er heldur minna í dag en það var í gær. En það er samt töluvert gos í gangi. Við vitum náttúrulega ekki hversu lengi þetta gos mun standa,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur í samtali við mbl.is en hann flaug í dag ásamt fleiri vísindamönnum með flugvél Landhelgisgæslunnar yfir gosstöðvarnar í Holuhrauni.

Magnús segir að staðan eigi líklega eftir að skýrast betur á morgun. Þá skýrist væntanlega hvaða áhrif gosið sé að hafa á aðlögunina og breytingarnar á ganginum. Hvort hann sé hættur að þenjast út. „Það verður sem sagt á morgun sem við sjáum það held ég betur.“ Ekki sé ljóst hvernig gosið eigi eftir að þróast.

Aðspurður segir hann þann möguleika vissulega fyrir hendi að gosið sé að fjara út. „En við höfum ekki séð nein merki um það ennþá.“

Landhelgisgæslan birti í kvöld myndband af gosstöðvunum sem tekið var úr lofti í dag.

Sem fyrr er síðan hægt að fylgjast með gosinu í vefmyndavélum Mílu hér og hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert