Lilja ráðin í forsætisráðuneytið

mbl.is/Hjörtur

Lilja D. Alfreðsdóttur hefur verið ráðin tímabundið sem verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu en hún hefur starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri á skrifstofu bankastjóra og alþjóðasamskipta í Seðlabanka Íslands. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Fram kemur að Lilja komi til starfa í ráðuneytinu á grundvelli tímabundins vistaskiptasamnings við Seðlabanka Íslands og verði á meðan í leyfi frá bankanum.

„Lilja D. Alfreðsdóttir hefur unnið í Seðlabanka Íslands frá árinu 2001 og starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri frá 2005. Einnig starfaði hún hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington DC frá 2010-2012. Lilja D. Alfreðsdóttir er með meistaragráðu frá Columbia University í alþjóðahagfræði og BA gráðu stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands,“ segir ennfremur.

Þá segir að ákveðið hafi verið að Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, verði aðstoðarmaður dómsmálaráðherra þar til annað verður ákveðið en Sigmundur tók við dómsmálahluta innanríkisráðuneytisins í síðustu viku. Mun Jóhannes hafa aðstöðu í innanríkisráðuneytinu frá og með deginum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert