Tekin af tvímæli um lóðir háskólans

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu í dag samning um lóðir háskólans. Fram kemur í fréttatilkynningu að samningurinn nái til um 400 þúsund fermetra landsvæðis og marki ákveðin tímamót í samskiptum Reykjavíkurborgar og Háskólans. Tekin séu með honum af öll tvímæli um afmörkun eignarlóðar háskólans sem og hvaða lóðir falli undir lóðarleigu en þar eru lóðir fyrir kennsluhúsnæði nú undanskildar. Vatnsverndarsvæði í Vatnsmýri færist á ný til borgarinnar og staðfest sé vilyrði til háskólans um uppbyggingu á Fluggarðasvæði. Vísindagarðareitur njóti sérstöðu í samningnum að því leyti að þar sé háskólanum heimilt að framselja lóðarréttindi til eflingar vísinda- og atvinnustarfsemi. 

„Lóðir fyrir Háskóla Íslands hafa verið til umfjöllunar hjá borgaryfirvöldum allt frá árinu 1930 og hafa allmörg vilyrði verið veitt og úthlutanir samþykktar fyrir háskólann og tengdar stofnanir. Í samþykktum bæjarstjórnar og síðar borgarstjórnar er talsvert mismunandi hversu formlega hefur verið gengið frá úthlutun lóða. Með hinum nýja heildarsamningi um lóðir er afmörkun landspildna og lóðamörk skýrð og nýting lóða. Vinnuhópur Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis hefur um skeið unnið að gerð þessa umfangsmikla samnings. Unnið var út frá almennu sjónarmiði ríkisins um skráningu ríkiseigna að ríkissjóður Íslands sé skráður rétthafi en Háskóli Íslands umráðaaðili og afnotahafi flestra umræddra lóða og mannvirkja,“ segir ennfremur.

Þá segir að samningurinn leysi úr misræmi sem verið hafi á því af hvaða lóðum lóðarleiga skuli greidd. Hún verði frá gildistöku samningsins ekki innheimt af kennsluhúsnæði og leiði það til sex milljóna króna lækkunar á lóðarleigutekjum hjá Reykjavíkurborg. „Þetta er m.a. gert til samræmis við samkomulag við Háskólann í Reykjavík á lóð hans við Öskjuhlíð. Ekki er greidd lóðarleiga af eignarlóð Háskóla Íslands, en fyrir lóðir undir stúdentagarða er greidd lóðarleiga eins og af íbúðarhúsalóðum í Reykjavík á hverjum tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert