Tveir stórir skjálftar í morgun

Farið verður í eftirlitsflug yfir skjálftasvæðið á eftir
Farið verður í eftirlitsflug yfir skjálftasvæðið á eftir mbl.is/Árni Sæberg

Jarðskjálfti sem mældist 5,3 stig varð við norðvesturbrún Bárðarbunguöskjunnar nú á tólfta tímanum (11.41).

Klukkan 08:58 í morgun varð jarðskjálfti upp á 5 stig við norðvesturbrún Bárðarbunguöskjunnar. Báðir skjálftarnir fundust á Akureyri. Hátt í fimm hundruð jarðskjálftar hafa verið í norðanverðum Vatnajökli frá því um miðnætti.  Mesta virknin er enn á 15 km löngu svæði með miðju á jaðri Dyngjujökuls.

Á fundi vísindamannaráðs Almannavarna í morgun kom fram að hraunið úr eldgosinu í Holuhrauni renni til norðurs frá gosstöðinni. Í gærkvöldi náði hraunið yfir um 3 km2 svæði. Rúmmál hraunsins er talið vera á milli 16 til 25 milljón rúmmetrar. Ekkert öskufall er frá gosstöðvunum.

TF-SIF fer í loftið kl. 13:00 og flýgur yfir svæðið með vísindamenn frá Veðurstofunni og Jarðvísindastofnun og fulltrúa almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. 

Gasbólstrar og gufa rísa frá sprungunni í nokkur hundruð metra hæð næst eldstöðvunum. Bólstrarnir stíga síðan í allt að 1200 metra hæð þegar fjær dregur.

Gasmælar hafa verið settir upp í nágrenni gosstöðvanna í Holuhrauni í tengslum við Futurevolc-verkefnið. Gasmælingar leiða í ljós umtalsvert magn af brennisteinssamböndum í gosmekkinum. Því getur mikil hætta falist í því að nálgast svæðið. Mikilvægt er að þeir sem fara nærri gosstöðvunum séu með gasmæla og gasgrímur, segir í tilkynningu frá almannavörnum.

GPS-mælingar sýna áframhaldandi láréttar færslur vegna gliðnunar við norðurjaðar Vatnajökuls. Ekki sjást skýr merki um þrýstingslækkun í ganginum í tengslum við eldgosið en greina má óreglu í GPS-færslum í næsta nágrenni við hann. Berggangurinn virðist ekki hafa færst til norðurs svo nokkurs nemi.

Enn er óvissa um hvert framhaldið á atburðarásinni verður. Fjórir möguleikar eru enn taldir líklegastir:

o   Að innflæði kviku stöðvist og skjálftahrinan fjari út og ekki komi til annars eldgoss.

o   Gangurinn nái til yfirborðs og annað eldgos hefjist, jafnvel á nýrri sprungu. Ekki er hægt að útiloka gos með hraunflæði og/eða sprengivirkni.

o   Gangurinn nái til yfirborðs og annað eldgos hefjist en verulegur hluti eða öll sprungan verði undir Dyngjujökli. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.

o   Gos í Bárðarbungu. Gosið gæti leitt til jökulhlaups og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli. Mestar líkur eru á að hlaup kæmi niður Jökulsá á Fjöllum, en ekki er hægt að útiloka aðrar hlaupaleiðir: Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Skaftárkatla og Grímsvötn.

Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.

Frá Veðurstofu Íslands: Litakóði fyrir flug er appelsínugulur fyrir Bárðarbungu og gulur fyrir Öskju.

Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert