Um 250 skjálftar frá miðnætti

Um 250 jarðskjálftar hafa mælst á og við norðanverðan Vatnajökul frá miðnætti, að sögn Martins Hensch, jarðskjálftafræðings á Veðurstofu Íslands. Blaðamaður og ljósmyndari mbl.is sem eru staddir á gosstöðvunum segja gosið sjást vel og töluverðir gufustrókar komi frá því. Mjög bjart er yfir og sést gosið því vel. Töluvert hraun hefur runnið frá eldstöðvunum, að sögn þeirra Benedikts Bóasar blaðamanns og Eggerts Jóhannessonar ljósmyndara mbl.is en þeir eru staddir skammt frá eldgosinu í Holuhrauni, skammt norður af Dyngjujökli.

Að sögn Martins hafa litlar breytingar orðið á eldgosinu í nótt en um hraungos er að ræða. Von er á frekari upplýsingum frá jarðvísindamönnum sem eru staddir fyrir norðan síðar í dag. 

Martin segir að flestir sjálftanna í nótt eigi upptök sín á norðurhluta skjálftasvæðisins, milli eldgossins og suður að Dyngjujökli. Stærstu skjálftarnir á þessum slóðum eru um tvö stig. Heldur hefur dregið úr skjálftavirkninni á þessum slóðum frá því að spenna losnaði við upphaf eldgossins í gær.

Líkt og fram hefur komið í morgun eru stærstu jarðskjálftarnir í og við Bárðarbungu en sá stærsti reið yfir um fimmleytið í morgun. Hann mældist 4,5 stig og upp­tök hans voru 5,3 km norðaust­ur af Bárðarbungu.

Ef horft er á Öskjusvæðið þá eru stærstu skjálftarnir á því svæði í Herðubreiðartöglum, sá sterkasti 2,9 stig. 

Vefmyndavél Mílu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert