„Það gilda engin lög um okkur“

Ásdís og Berglind eru giftar og eiga von á frumburði …
Ásdís og Berglind eru giftar og eiga von á frumburði sínum. Ljósmynd/Ásdís Kristinsdóttir

„Það er enginn sem er að hlusta almennilega á okkur ennþá, og mér finnst ég næstum því finna fyrir fordómum árið 2014 í Danmörku,“ segir Ásdís Kristinsdóttir, en eins og staðan er í dag mun hún ekki verða foreldri barnsins sem konan hennar, Berglind Magnúsdóttir, gengur með nema hún ættleiði það, og það getur hún ekki gert fyrr en eftir 2 og hálft ár.

Berglind fór í tæknifrjóvgun í febrúar á opinberu sjúkrahúsi í Árósum, og varð ólétt. „Við spurðum sérstaklega um það á sjúkrahúsinu hvort við þyrftum eitthvað að gera en fengum þau svör að við þyrftum ekkert að aðhafast og þetta færi allt saman eðlilega í gegn þegar barnið fæddist,“ segir Ásdís.

Það sem starfsmenn sjúkrahússins höfðu ekki kynnt sér var það að lögum var breytt í Danmörku í desember á seinasta ári. Nýju lögin gerðu það að verkum að meðmæður áttu að hafa öll sömu réttindi og feður þegar barn þeirra fæddist, og vera skráðar á fæðingavottorð sem foreldrar. Áður en frjósemismeðferðin byrjaði átti Ásdís því að skrifa undir svokallað meðmóðurvottorð þess efnis að hún væri með í ferlinu. Þar sem starfsmenn sjúkrahússins höfðu ekki vitneskju um þetta, skrifaði hún ekki undir vottorðið og er því nú í gati á milli nýju laganna og þeirra gömlu.

Vilja vekja athygli á málinu hjá ríkisstjórninni

„Við getum ekki nýtt okkur nýju lögin og ekki þau gömlu þar sem þau eru fallin úr gildi, svo það gilda engin lög um okkur núna,“ segir Ásdís, en hún og Berglind komust að þessu þegar þær lásu um annað par í sömu stöðu. „Við viljum vekja athygli á þessu hjá ríkisstjórninni í Danmörku og hjá félagsmálaráðherra og fá þau til að taka málið upp og búa til einhvers konar brú fyrir okkur sem erum í þessu gati,“ segir Ásdís. „Svo við getum fengið forræði yfir barninu okkar eins og við eigum rétt á um leið og það fæðist.“

Gömlu lögin voru þannig að meðmóðirin þurfti að ættleiða á fyrstu 3 mánuðum eftir að barnið var fætt og þá tók ættleiðingin gildi. Með nýju lögunum er þessu ekki eins háttað. „Eins og staðan er í dag þarf ég að vera búin að hafa samband við barnið mitt í 2 og hálft ár áður en ég má ættleiða það og verða lagalegt foreldri,“ segir Ásdís.

„Við vitum ekki neitt“

Þær Ásdís og Berglind komust að þeirri stöðu sem þær væru í um helgina og í gær fóru þær á fullt í það að leita svara. „Við höfðum samband við sjúkrahúsið í gær og komumst að því að við hefðum ekki útfyllt þessa pappíra. Starfsmenn sjúkrahússins báðust ekki einu sinni afsökunar á því að hafa ekki kynnt sér þessi nýju lög,“ segir Ásdís, en hún segir þá hafa vitað af stöðunni í apríl á þessu ári, en ekki haft samband við þær til að láta þær vita.

Svörin sem þær fengu frá sjúkrahúsinu var að hafa samband við stofnun, sem er eins konar milligönguliður milli ríkisins og þegnanna og sér meðal annars um forræðismál. „Þau pör sem eru í sömu stöðu og við hafa fengið svör frá þessari stofnun þess efnis að þau muni ekkert aðhafast fyrr en barnið er fætt og þá muni þeir taka málið fyrir dómstóla. Þá munu þeir sjá hvort dómstólum þyki upplýsingagjöf nægileg,“ segir Ásdís. „Við erum ennþá að bíða eftir símtali frá þessari stofnun. Við vitum ekki neitt og erum í algjörri biðstöðu. Á meðan reynum við að skapa umræðu og pressa á ráðherrann að gera eitthvað.“

Hefur engan rétt gagnvart barninu

Ásdís segir þessa óvissustöðu hafa gríðarleg áhrif á framtíð fjölskyldunnar. „Ég er í námi og er á SU, danska námsstyrknum. Við erum búnar að gera ráð fyrir því að þegar barnið fæðist fái ég tvöfaldan SU, en það mun ekki gerast ef ég er ekki á fæðingavottorðinu,“ segir Ásdís. „Svo hef ég engan rétt á fæðingarorlofi, og ef konan mín skyldi deyja eða við myndum skilja hef ég engan rétt gagnvart barninu.“

Hún segir allan skilning vanta á málinu. „Okkar barn er að fæðast inn í hjónaband en samt verður konan mín tæknilega séð einstætt foreldri. Það er svo margt í þessu sem gengur ekki upp. Ef þetta væru gagnkynhneigð pör hefði orðið miklu meira umtal um þetta, sérstaklega eftir að mistökin komu upp.“

Gæti haft áhrif á önnur íslensk pör

Ásdís segir þær Berglindi einnig vilja vekja athygli á því að þetta gæti haft áhrif á íslensk pör sem hafa farið til Danmerkur í tæknifrjóvgun frá því í desember. Ásdís hafði samband við Þjóðskrá þar sem hún fékk þau svör að pappírar þyrftu að vera til staðar frá sjúkrahúsinu þess efnis að báðir aðilar hefðu tekið þátt í meðferðinni. „Við höfum ekki þessa pappíra svo við gætum tæknilega séð ekki einu sinni komið til Íslands til að eiga og farið svo aftur út til Danmörku,“ segir Ásdís.

Hún segir fleiri dönsk pör einnig vera í sömu stöðu. „Ég veit til þess að það er eitt par þar sem önnur konan gekk með egg hinnar konunnar og þær eru staddar í sömu stöðu. Konan sem á eggið hefur engan lagalegan rétt gagnvart barninu.“

Frumburður þeirra Ásdísar og Berglindar er væntanlegur í nóvember, og vonast þær til þess að vera komin með svör fyrir þann tíma.

Ljósmynd/Ásdís Kristinsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert