Frekar má búast við langvinnu gosi

Ómögulegt er að segja til um hve lengi gosið í Holuhrauni mun standa og velutr það á því hve greiða leið kvikan á frá uppstreyminu undir Bárðarbungu að eldgígunum. Hins vegar má frekar búast við langvinnu gosi eða gosum en skammvinnu. Þetta segja jarðvísindamenn Íslenskra orkurannsókna.

Á vefsvæði ÍSOR má finna hugleiðingar um jarðhræringarnar við Bárðarbungu. Þar er meðal annars bent á að gosin í Kröflueldum hafi staðið stutt og endurtekið sig enda var þar greinilegt að kvikan safnaðist jafnt og þétt fyrir í grunnstæðu kvikuhólfi sem flæddi úr út í sprungukerfið af og til. „Í Bárðarbungu er líklegra að kvikan hafi ekki viðdvöl í grunnstæðu kvikuhólfi eins og í tilviki Kröflu heldur streymi beint úr uppstreymisrásinni undir kvikuhólfinu og út að eldgígunum. Eins er uppstreymið talið vera mun meira undir Bárðarbungu en var í Kröflueldum. Því má frekar búast við langvinnu gosi eða gosum en skammvinnu.“

Þá segir að framrás kvikuæðarinnar til norðurs hafi stöðvast snögglega og mjög ákveðið rétt norðan Holuhrauns og hefur það stopp nú staðið í um viku tíma. „Smágos varð svo aðfaranótt 29. ágúst í miðhluta gígaraðarinnar sem myndaði Holuhraun, líklega árið 1797. Þetta styður þá tilgátu sem sett var fram hér á vefsíðu ÍSOR þann 20. ágúst um að hugsanlega hefði Holuhraun myndast í svipaðri atburðarás og er nú í gangi.“

Hugleiðingar jarðvísindamanna ÍSOR

Hér að neðan má sjá myndband sem Skarphéðinn Snorrason tók í gær þegar hann flaug yfir gosið á fisvél. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert