Gerir heimildarmynd um sjálfsefa

Þóra Tómasdóttir
Þóra Tómasdóttir

„Mig langaði að gera mynd um þessa óþægilegu tilfinningu sem ég hef verið að kljást við alla tíð; að geta ekki verið ánægð með nokkurn skapaðan hlut sem ég geri,“ segir Þóra Tómasdóttir, en hún hefur unnið að heimildarmyndinni Ef síðustu mánuði.

Myndin byggir á viðtölum við fimm listamenn; Jón Gnarr, leikara og fyrrum borgarstjóra, Víking Heiðar Ólafsson, tónlistarmann, Steinunni Sigurðardóttur, rithöfund, Auði Jónsdóttur, rithöfund og Egil Sæbjörnsson, myndlistarmann, og hvernig þau lifa með og takast á við sínar dýpstu sjálfsefasemdir. „Myndin snýst um sjálfsefa og hvers konar afl það er, sérstaklega í listrænu og skapandi vinnuferli,“ segir Þóra.

Hún segir sjálfsefasemdir vera öllu þessu fólki mjög kærar og mikilvægur leiðarvísir í þeirra störfum. „Þau hafa nokkuð ólíkar skoðanir á þessu en öll deila því að hafa glímt við mjög mikinn sjálfsefa og farið mjög langt í því,“ segir Þóra.

Þóra telur að sjálfsefasemdir séu sammannlegt fyrirbæri sem sumum tekst að nota til að ná framförum og gera betur. „Eins og Jón Gnarr talar um í myndinni þá er sjálfsefinn órjúfanlegur hluti af öllu skapandi ferli fyrir honum. Hann verður að vera vegna þess að hvað myndi gerast ef við myndum taka sjálfsefann í burtu? Hvernig sköpun er það ef fólk veður áfram og spyr sig ekki spurninga á leiðinni og í ferlinu?“ segir hún.

Ríkjandi stef að yfirvinna efasemdir

„Vanlíðanin sem fylgir því að efast um það sem þú gerir sjálfur, færni þína og framlag, sú vanlíðan er eflaust óhjákvæmileg,“ segir Þóra, en hún telur það ríkjandi stef í sjálfshjálparkúltúr og leiðtogadýrkun atvinnulífsins að vilja yfirvinna efasemdir og óöryggi. „Efasemdir geta vissulega verið lamandi, en er kannski varhugavert markmið að vilja yfirvinna efann að fullu?“ segir hún. „Viðmælendur í myndinni telja sársaukafulla sjálfsgagnrýni verða að vera til staðar til að ná lengra í sínu fagi.“

Þóra segir sjálfsefa óumflýjanlegan hluta af því að vera manneskja. „Skil ég þetta? Get ég þetta? Ræð ég við þetta? Er ég nógu góð í þetta? Þetta eru spurningar sem við erum alltaf að spyrja okkur að, alveg sama hvernig við komum fram og þó við virkum sjálfsörugg,“ segir Þóra, en hún telur að stundum sé sjálfsöruggri framkomu hampað á kostnað eiginleika og hæfni. „Það má líka velta upp spurningum um það hversu mikið svigrúm sé í íslensku atvinnulífi til þess að efast um eða viðurkenna óöryggi sitt og vankunnáttu til að leysa ákveðin verkefni. Eru kannski ennþá gerðar þær óraunhæfu kröfur um að fólk í ábyrgðarstöðum leiki það hlutverk að það viti allt og skilji allt?“

Sýnir nýjar hliðar á viðmælendunum

Þóra segir það hafa komið sér á óvart hversu tamt listamönnunum fimm var að tala um sjálfsefa og hversu vel þau þekktu sínar dýpstu og erfiðustu sjálfsefasemdir. „Jón Gnarr er dæmi sem allir þekkja um mann sem viðurkennir vanmátt sinn og óöryggi sitt á ákveðnum sviðum og er ekki feiminn við að gangast við göllum sínum. Hvað uppsker hann annað en traust anarra fyrir vikið?“ segir Þóra en hún segir myndina sýna nýjar hliðar á fólki sem allt á sér blómstrandi starfsframa.

Kvikmyndataka myndarinnar var í höndum Rutar Sigurðardóttur, og var hún tekin upp á Íslandi og í Berlín. Myndin verður frumsýnd á Reykjavík International Film Festival í september. Hér fyrir neðan má sjá stiklu úr myndinni.

Post by Ef.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert